144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:37]
Horfa

Ásmundur Friðriksson (S):

Virðulegi forseti. Bundnar voru vonir við nýja þingmenn sem tóku sæti eftir síðustu kosningar, að þeir mundu breyta ásýnd þingsins og bæta andann í þinginu. Mér finnst okkur hafa algjörlega mistekist það.

Á síðasta þingi gerði ég mér far um það að hringja í félaga mína í Sjálfstæðisflokknum og skamma þá fyrir málþóf sem mér finnst niðurlægja þennan vinnustað og ég fordæmi það málþóf sem hér hefur farið fram, síðast í gærkvöldi. Þetta er lítillækkun fyrir þennan vinnustað og til háborinnar skammar fyrir okkur sem erum að vinna fyrir land og þjóð.

Þá er virðing þingmanna í garð hvers annars einkennileg. Hv. þm. Oddný G. Harðardóttir segir í viðtali við Víkurfréttir að stjórnarþingmenn á Suðurnesjum flytji störf í burtu þegar fjárlaganefnd geri kröfu á Isavia um arð til ríkisins, (Gripið fram í: Hárrétt.) það sé verið að flytja störf í burtu af Suðurnesjunum. Þetta eru ósannindi. (Gripið fram í: Hárrétt.) Það eru engin störf að fara í burtu út af því á Suðurnesjum. Það er mikil uppbygging fram undan. (Gripið fram í: Búið að vera lengi.)

Ég, sem hef rætt hér um góð gildi lífsins og kristna trú sem er mér hugleikin, fæ kalda kveðju frá góðum samstarfsmanni í velferðarnefnd, hv. þm. Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur, sem kallar mig teboðshræsnara fyrir að tala um góð gildi lífsins. Er þetta andinn sem við viljum að ríki í þessu húsi? Er þetta samstarfsandinn sem við viljum að ríki í þessu húsi? Ég trúi því ekki. Ég held að þeir þingmenn sem tala svona séu ekki að lítillækka sjálfa sig, þeir eru að lítillækka þennan vinnustað, vinnustað sem fólkið í landinu lítur til og vill að borin sé virðing fyrir. Við gerum það ekki með svona talsmáta. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)