144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[10:57]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (F):

Virðulegi forseti. Ég ætla að byrja á að koma inn á mál sem hv. þm. Karl Garðarsson minntist á og líka hv. þm. Helgi Hjörvar og snýr að auknum vaxtamun bankanna. Ég verð að segja eins og er sem venjulegur íbúi í þessu landi að það er grafalvarlegt og alls ólíðandi að bankarnir taki aukinn vaxtamun þegar stýrivaxtalækkun kemur frá Seðlabankanum. Ég verð að segja líka eins og er að þetta sýnir okkur að enn er ekki lokið þeirri endurskipulagningu sem þarf á bankamarkaði. Bankarnir eru enn allt of stórir og það skrifast að verulegum hluta á síðustu ríkisstjórn að fara af stað með að reisa of stórt bankakerfi. Það var einmitt um svipað leyti á síðasta kjörtímabili þar sem sú vinna var í gangi.

Við hljótum líka að spyrja okkur til hvers bankakerfið sé og með hvaða hætti það eigi að starfa. Það á að þjónusta atvinnulífið og heimilin í landinu. Og með því að bankarnir taka sífellt meira í vaxtamun kemur það ekki til góða fyrir heimilin og fyrirtækin í landinu. Það er mjög mikilvægt að fara ofan í þetta mál. Ég fagna þess vegna að málið hafi verið tekið hér upp, m.a. af hv. þm. Karli Garðarssyni. (Gripið fram í: Bankaskatturinn …) Bankaskattur sem settur var á þrotabú föllnu bankanna, kallar hv. þingmaður inn í, sem síðasta ríkisstjórn þorði reyndar ekki að fara í en þessi ríkisstjórn gerði, og það er ánægjulegt að hv. þingmaður skuli benda á hann hér.

Komið var inn á Isavia og því ranglega haldið fram að verið sé að flytja störf frá Suðurnesjunum. Það hefur ekkert komið fram í vinnslu þessa máls í fjárlaganefnd, m.a. milli funda, sem stenst þá skoðun að verið sé að flytja störf frá Suðurnesjum. Það sem er hins vegar verið að gera, staðreynd sem er hægt að halda til haga hér, er að fyrri ríkisstjórn skar mjög mikið niður til viðhalds á innanlandsflugvöllum á síðasta kjörtímabili. Það er mjög ánægjulegt að verið sé að setja (Forseti hringir.) aukið fjármagn í viðhald á innanlandsflugvöllum þannig að hægt sé að sinna hér sjúkraflugi og sömuleiðis farþegaflugi innan lands. Það er það sem við eigum að fagna. (Forseti hringir.) Þetta mun ekki koma (Forseti hringir.) niður á uppbyggingu á Suðurnesjum, síður en svo. (OH: Það er rangt.)