144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

störf þingsins.

[11:00]
Horfa

Sigrún Magnúsdóttir (F):

Virðulegi forseti. Mig langar að draga fram tvennt eða þrennt úr umræðunni. Fyrst langar mig til að víkja að Ríkisútvarpinu sem hefur verið hér nokkuð til umræðu, m.a. gat hv. þingmaður um það áðan. Það er merkisgrein í Morgunblaðinu í dag, prýðisgrein eftir Vigdísi Hauksdóttur sem heitir „Sannleikurinn um RÚV“. Ég tel að allir hér inni sem og annars staðar ættu að kynna sér þessa grein. Þar kemur fram að heildarfjármagn til Ríkisútvarpsins hefur aldrei verið hærra síðustu tíu árin en núna, aldrei hærra heildarframlag. En það er alveg sama hvort maður stýrir menningarstofnun, velferðarstofnun, fjármálastofnun eða verslun, maður þarf að huga að fjárhagsramma sínum. Ég vitna í þessa grein, með leyfi forseta:

„Stjórnvöld gáfu stjórnendum RÚV aukið svigrúm að trappa niður reksturinn og um leið að skila gjaldinu öllu og óskiptu til stofnunarinnar. Nákvæmlega ár er liðið frá þessari þinglegu ákvörðun — að RÚV ætti að miða rekstur sinn við að gjaldið yrði 17.800 kr.“

Það er þetta sem við höfum verið að segja allan tímann, að okkar ágæta Ríkisútvarp þurfi að miða rekstur sinn við það sem það fær á fjárlögum. Þegar við höfum aldrei sett meira í það en akkúrat núna er sérkennileg sú umræða sem viðgengst hér dag eftir dag, að það sé verið að skera þar niður.

Hitt atriðið er þau orð sem hv. þm. Oddný Harðardóttir lét falla í atkvæðaskýringu í fjárlagaumræðunni á miðvikudaginn. Hún var að hneykslast á 1 þús. milljónum sem við erum að setja til barnabóta á þann veg að þær byrjuðu að skerðast við svo lág laun. Mergurinn málsins er sá, hv. þingmaður, að þetta eru bætur til foreldra sem eru með lág laun, til barna sem ekki njóta (Forseti hringir.) foreldra sem eru með há laun. Það er meginþemað. Og hvað er nú sem þið eruð alltaf að hneykslast (Forseti hringir.) á, að við séum að hugsa eingöngu um ríka fólkið? (Gripið fram í: Skerðing …) Þarna erum við að hugsa um barnabætur (Forseti hringir.) til láglaunafólksins. (Gripið fram í.)