144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

virðisaukaskattur o.fl.

2. mál
[11:12]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Þetta frumvarp hefur því miður ekki tekið neinum teljandi eða marktækum breytingum þrátt fyrir harða gagnrýni sem það hefur sætt bæði innan þings og utan. Við gerum hér tilraun til að laga á því einn augljósan ágalla sem er hin misráðna niðurfelling sykurskattsins sem landlæknir, Lýðheilsustöð og aðrir slíkir aðilar hafa eindregið skorað á Alþingi að fara ekki út í á sama tíma og hollustuvaran á að hækka í verði og mælum auðvitað með því að sú ágæta tillaga að sykurskatturinn haldist áfram og verði notaður í heilbrigðistengd verkefni verði studd.

Megininntak frumvarpsins er þessi matar- og menningarskattur sem hæstv. ríkisstjórn leggur hér á. Það gerir það að verkum að jafnvel þó að frumvarpið hafi tekið örlitlum breytingum til bóta er það að uppistöðu til svo misráðið að við munum greiða atkvæði gegn því í heild sinni.