144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

uppbygging innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka.

404. mál
[11:52]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir breytingartillögu við frumvarp til laga um breytingu á lögum nr. 41/2013, um heimild til handa ráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, til að fjármagna uppbyggingu innviða vegna atvinnustarfsemi í landi Bakka í Norðurþingi, það bætist við ný grein sem verði svohljóðandi:

„Vegna fyrirhugaðrar stofnunar og reksturs atvinnustarfsemi á iðnaðarsvæði í landi Bakka í Norðurþingi, þar sem gert er ráð fyrir verulegri fjárfestingu sem hafi jákvæð þjóðhagsleg, samfélagsleg og efnahagsleg áhrif á Húsavík og nágrenni þess, og í þeim tilgangi að byggja upp nauðsynlega innviði vegna iðnaðarsvæðisins, er:

a. ráðherra, f.h. ríkissjóðs, heimilt, að fengnum heimildum í fjárlögum, að semja við Vegagerðina um gerð vegtengingar milli Húsavíkurhafnar og iðnaðarsvæðisins á Bakka sem kostar allt að 1.800 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012,

b. ráðherra sem fer með lánsfjármál ríkissjóðs heimilt, f.h. ríkissjóðs, að fengnum heimildum í fjárlögum, að semja við hafnarsjóð Húsavíkurhafnar um víkjandi lán til hafnarframkvæmda fyrir allt að 819 millj. kr., miðað við verðlag í lok árs 2012.“

Í greinargerð segir að lagt sé til að kveðið verði á um það í lögunum að fjármálaráðherra, fyrir hönd ríkissjóðs, semji við hafnarsjóð samkvæmt b-lið 1. mgr. 1. gr. laganna enda sé í forsetaúrskurði um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta mælt fyrir um að fjármála- og efnahagsráðherra fari með lántökur og lánsfjármál.

Á þeim tíma sem lög um þetta voru samþykkt var svolítið rót á ráðherraskipan. Einn hæstv. ráðherra var úr ræðustól Alþingis oft kallaður hæstv. allsherjarráðherra og það hafði verið búið þannig um hnúta að atvinnuvegaráðuneytið mundi sjá um að framkvæma þessi lánsfjármál en þetta er sem sagt hér með fært yfir til fjármálaráðuneytisins eins og gert er ráð fyrir.