144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[15:37]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Bjarkey Gunnarsdóttir) (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Þetta eru stórir vinnustaðir í sjálfu sér á þessum litlu stöðum. Þetta hefur til dæmis orðið til þess í minni heimabyggð að það fjölgaði töluvert háskólamenntuðu fólki. Því bauðst vinna sem ekki hafði endilega verið til staðar. Þetta er líka hvati því að bæði fjölgar íbúum og fólk flytur heim aftur sem kannski hefði annars ekki komið. Við höfum einmitt rætt þetta töluvert varðandi símenntunarmiðstöðvarnar eða þessar háskólabrýr, sem eru nú ekki nema tvær eða þrjár, hvert fólk eigi að fara. Símenntunarmiðstöðvarnar starfa ekki eftir lögum um framhaldsskóla, þær lúta allt öðrum reglum en framhaldsskólalögum. Þar af leiðandi er það líka óábyrgt af hálfu hæstv. ráðherra að velta ábyrgð af framhaldsskólakerfinu yfir á símenntunarmiðstöðvarnar. Hann heldur því fram að það eigi að vera úrræði fyrir fullorðið fólk, þ.e. 25 ára og eldri, til að ná sér í framhaldsnám, þ.e. stúdentspróf.

Það er alltaf verið að tala um að einfalda öll kerfi en núna er verið að búa til enn þá fleiri kerfi ef þetta á að vera úrræði til stúdentsprófs en ekki bara til sí- og endurmenntunar eða einhvers slíks. Það er allt annar hlutur en að ætla að búa til stúdentsútskrift hjá símenntunarmiðstöðvum til viðbótar við framhaldsskólana. Það virðist vera það sem liggur fyrir.

Svo getum við líka sagt að þó að þangað séu gjarnan ráðnir framhaldsskólakennarar er það ekkert endilega þannig. Þeir þurfa ekki að vera kennaramenntaðir. Þó að þeir séu það örugglega allflestir hjá símenntunarmiðstöðvunum þurfa þeir ekki að vera það.