144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[16:37]
Horfa

Jón Þór Ólafsson (P) (andsvar):

Frú forseti. Við skulum ekki taka svo sterkt til orða að ég sé að hrósa þeirri forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að lækka sérstök veiðigjöld, mjög sanngjarna gjaldtöku á sjávarútveginn, og fyrir þessi kosningaloforð um skuldaleiðréttinguna. Nei, ég sagði réttilega að maður gæti kannski ekki álasað henni fyrir það. Það segir samt sem áður bara til um forgangsröðunina, þetta er forgangsröðunin. Heilbrigðiskerfið er þar ekki. Ef heilbrigðiskerfið hefði verið í forgangi hefðu menn aðeins beðið með þetta og nýtt þessa stóru potta til að tryggja fyrst að heilbrigðiskerfið væri komið á réttan kjöl, (Gripið fram í: Heyr, heyr.) að fyrsta flokks heilbrigðiskerfi, örugg heilbrigðisþjónusta væri komin á koppinn. Þá gætu menn snúið sér að öðru ef það væri forgangsröðunin. (Gripið fram í: Nákvæmlega.) Það er bara alveg ljóst að þetta er ekki forgangur, fyrsta flokks heilbrigðiskerfi er ekki forgangur þessarar ríkisstjórnar.

Ég man ekki hver síðari spurningin var. (Gripið fram í: Um það sem …) Já, einmitt, það er góður punktur. Þarna setur hv. þingmaður puttann á vandamálið við þetta fulltrúalýðræði þar sem maður kýs á fjögurra ára fresti einhverja flokka til að fara með nánast alræðisvald, náttúrlega stjórnarskrárbundið alræðisvald, til að gera það sem þeim sýnist. Það er ekki hægt að reka þá, það þarf mjög mikið til eins og í byltingu. Það er ekki byggt inn í stjórnkerfið að það sé hægt að reka þá, og við sitjum uppi með, eins og ég heyrði þingmann Sjálfstæðisflokksins segja: Hvað eruð þið eitthvað að reyna að skipta ykkur af fjárlögum? Við vorum kosin og við ráðum.

Þetta er gallinn. Það þarf að setja inn meira beint lýðræði. Við eigum ekki að afnema fulltrúalýðræðið, það er ekki hægt að gera það á einu bretti, en við eigum að færa okkur meira inn í beint lýðræði þar sem almenningur getur meira komið að ákvarðanatöku, líka þegar kemur að fjárútlátum og forgangsröðun, (Forseti hringir.) sér í lagi forgangsröðuninni. Það væri hægt að gera með alls konar samkundum, menn hafa reynt ýmsa hluti í gegnum tíðina og það er klárlega hægt (Forseti hringir.) að gera það.