144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[17:47]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ímynda mér alveg að það sé óþægilegt að hlusta hér á sambærileg mál sem voru tekin fyrir á síðasta kjörtímabili. Af hverju er leyfilegt að eyrnamerkja sérstaklega til Sjúkrahússins á Akureyri og ganga þannig freklega gegn vilja stjórnenda þar, en þegar kemur að sama máli varðandi háskólann þá er bara allt, allt annað uppi á teningnum? (Gripið fram í.)

Hvernig var þetta varðandi Háskólann á Akureyri á síðasta kjörtímabili? Ég man ekki betur en ég hafi flutt nokkrar ræður um að þáverandi ríkisstjórn ætti kannski að bæta aðeins í og reyna með einum eða öðrum hætti að laga þann halla sem var á rekstri skólans. Ég held að það sé bara allt í lagi að rifja það upp núna þegar menn koma og berja sér á brjóst, algjörlega nýfæddir í pólitík eins og þeir hafi engin skref stigið áður.

Við viljum styðja við sjúkrahúsið. Ég studdi þáverandi ríkisstjórn á sínum tíma í að eyrnamerkja fyrir Barna- og unglingageðdeildina, það gerði ég. En mér þykir miður að menn skuli ekki (Forseti hringir.) sjá sóma sinn í því að styðja við kennslu í heimskautarétti.