144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:25]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Brynhildur Pétursdóttir spyr mig um lausn í þessu sambandi. Já, ég sé lausn. Grundvallaratriðið er það, og var það sem við væntum og biðum eftir í morgun þegar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, flutti nefndarálit sitt sem var sem skrifaður texti en hafði auðvitað tíma til að fara líka munnlega í það til að bæta við, af þar hefði komið fram skýring á því að sá texti sem kom fram fyrir 2. umr. fjárlaga væri úr gildi fallinn og inn væri settur texti, eins og hjá öðrum, að veittar væru 30 millj. kr. til Háskólans á Akureyri. Síðan er það yfirstjórnar skólans að ráðstafa þeim innan lagaramma um opinbera háskóla og reglur Háskólans á Akureyri.

Eins og ég segi, ef yfirstjórn skólans vill nota þá peninga alla í rannsóknarmissiri eins og hún hefur gert við þær tvisvar sinnum 30 milljónir sem hafa komið þá er það að sjálfsögðu ákvörðun stjórnarinnar sem er betur til þess fallin að ákveða það en við alþingismenn. Einnig má segja að ef yfirstjórn skólans telur að einhver upphæð af því ætti að fara til að efla kennslu í heimskautarétti þá er það bara ákvörðun hennar. En ákvörðunin verður að vera hennar að taka en ekki með bundnar hendur, eins og kemur hér fram við 2. umr. fjárlaga, sem er lögskýringartexti. Að mínu mati er það ákaflega erfitt fyrir yfirstjórn háskólans að fara fram hjá því og þess vegna sendir háskólaráðið okkur ályktanir um þetta og hvetur til þess að þetta verði lagfært.

Virðulegi forseti. Lausnin er einfaldlega sú að menn átti sig á þeim mistökum sem þarna eru gerð, menn eru meiri að því að viðurkenna það, og að til dæmis hv. formaður fjárlaganefndar, Vigdís Hauksdóttir, komi hingað í ræðustól á eftir og lýsi því yfir fyrir hönd meiri hluta nefndarinnar að sá texti sem kom þarna fram sé fallinn úr gildi og þetta séu 30 millj. kr. með þeim texta eins og kom til dæmis fram í fjáraukanum. Það er fullnægjandi.