144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:40]
Horfa

Kristján L. Möller (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þm. Birgi Ármannssyni fyrir ákaflega málefnalegt og gott andsvar þar sem hann ræðir um það mál sem var eitt af þremur eða fjórum áherslumálum mínum í síðustu umræðu um fjárlög fyrir 2015 sem sneri að samgöngumálum, þó svo það snúi líka svolítið mikið að norðaustanáttinni eða Norðausturkjördæmi. En hv. þingmaður hefði líka verið fullsæmdur af því að ræða það með okkur, ættaður frá Siglufirði, einn af mörgum sem eiga sæti á Alþingi.

Hv. þingmaður ræddi um flugvellina og Isavia. Já, ég ítreka það sem ég sagði. Þetta er leið sem er alveg hárrétt að fara, taka arð af Isavia og nota hann í að lagfæra flugvelli úti um landið. Þetta er bara hlutur sem aðrar þjóðir gera. ESA, sem við þurfum oft að tala við og spyrja, getur ekki gert athugasemdir við það.

Ég hef gert að umtalsefni framkvæmdir til vegamála. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður sagði að mörg undanfarin ár, þar á meðal í samgönguráðherratíð minni, hefur verið lögð höfuðáhersla á nýframkvæmdir vegna þess að það var svo nauðsynlegt, það var svo mikilvægt, en viðhaldið hefur setið á hakanum. Nú er aðeins verið að gefa í þar og það þarf að gera ásamt því auðvitað að huga alveg sérstaklega að tekjustofnum til Vegagerðarinnar til framtíðar. Þá þurfum við til dæmis að svara því hvernig við ætlum að skattleggja umhverfisvæna bíla sem borga ekkert í dag, rafmagnsbíla til dæmis.

En aðeins hvað varðar fjárveitingarnar þá ætla ég að segja að ég hef hér súlurit yfir framkvæmdir í stofnkostnaði á verðlagi 2014. Þá kemur í ljós að frá árinu 2007 þegar ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar var mynduð og til ársins 2013 voru tæpir 100 milljarðar kr. veittir í nýframkvæmdir og stofnkostnað hjá Vegagerðinni. Á næsta ári lítur það út fyrir að vera tæpir 7,5 milljarðar. Þar, virðulegi (Forseti hringir.) forseti, eru náttúrlega verk í gangi sem taka peninga þannig að lítið verður til nýrra útboða eins og ég sagði áðan.