144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[19:42]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ítreka það sem ég sagði að ég held að við hljótum að líta á vegamálin sérstaklega sem mikilvægt viðfangsefni nú þegar við gerum okkur vonir um að efnahagur landsins sé að rísa úr öskustónni eftir mörg erfið ár. Hættan er vissulega sú, eins og hv. þingmaður nefndi, þar sem viðhalds- og endurnýjunarverkefni hafa setið á hakanum um alllangt skeið, að við séum farin að horfa fram á töluvert mikinn uppsafnaðan vanda á því sviði sem mun taka okkur nokkurn tíma að vinna okkur út úr.

Ég vil hins vegar að lokum nefna eitt og inna hv. þingmann eftir því hvort hann geti ekki verið sammála þeirri skoðun minni að innviðauppbygging af því tagi sem við erum að ræða sé hugsanlega besta framlag sem við eigum kost á til þess að efla byggð í hinum dreifðu byggðum landsins, (Forseti hringir.) hvort það sé ekki einmitt með slíkum aðferðum, innviðauppbyggingu í samgöngum og (Forseti hringir.) sambærilegum hætti, sem við getum helst (Forseti hringir.) stuðlað að því að veikari (Forseti hringir.) byggðir nái að blómstra.