144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:06]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef tekið útkomu vegamálanna og samgöngumálanna upp nokkrum sinnum í umræðum á haustinu og lýst yfir þungum áhyggjum vegna þess að það er að teiknast upp fyrir okkur að nánast engar nýframkvæmdir verður hægt að setja af stað af næsta ári. Þau verkefni sem í gangi eru munu taka allt laust framkvæmdafé Vegagerðarinnar. Það verður algert einsdæmi. Við getum farið yfir stöðuna í okkar kjördæmi, þar bíða a.m.k. tvö stór verk sem átti að vera búið að bjóða út fyrir löngu, Dettifossvegur og botn Berufjarðar. Hvorugt kemst þá af stað með þessu áframhaldi. Það er óskaplega dapurlegt.

Ég bind vonir við að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar hljóti að velta þessu eitthvað fyrir sér í byrjun næsta árs og treystir sér væntanlega illa til þess að leggja fram samgönguáætlun sem yrði að sýna þetta. Þannig að það eru kannski einhverjar vonir til þess að þetta verði lagað innan ársins, en auðvitað er ekki góður bragur á því að þurfa að setja aukafjárveitingar í slíkt.

Vegna þess að ég varð að eyða öllum tíma mínum í annað brýnna mál sem þarf að leysa á þessu kvöldi og varðar Háskólann á Akureyri þá gat ég ekki eytt miklum tíma í að fara yfir í samgöngumálin, en ég er algjörlega sammála hv. þingmanni um að þetta verður sennilega einsdæmi í sögunni og svo sem ekkert um það að tala. Aðalatriðið er sú neyð sem er að skapast í vegakerfi landsins. Það er stórkostlega alvarlegt mál hvernig vegirnir eru sums staðar að stórskemmast vegna ónógs viðhalds þar sem t.d. nýframkvæmdir til að styrkja burðarlag og endurnýja slitlag hafa ekki komist áfram. Vegir eru sums staðar að brotna niður o.s.frv.

Ég held að við séum að komast á það stig í þessum efnum að þetta er ekki bara bagaleg töf heldur getur ástandið valdið stórtjóni sem mun kosta okkur margfalt í framhaldinu ef það þarf meira og minna að endurbyggja vegi sem hægt hefði verið að styrkja og laga með ódýrari hætti ef það hefði verið gert tímanlega.