144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:39]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Já, ég efast ekki um að við munum gera það, hv. þm. Össur Skarphéðinsson. Það eru enn þá svæði á landinu sem eru aftarlega á merinni. Menn hafa gert átak í að kortleggja hvar ljúka þurfi háhraðatengingu um landið sem er líka mjög brýnt til að byggð haldist vítt og breitt um landið, það er orðið ekkert síður mikilvægt en góðar samgöngur. En því miður eru enn þá staðir sem eru ekki komnir með góðar samgöngur og ekki bundið slitlag. Það er í raun og veru eitthvað sem þingheimur ætti að sammælast um, að taka það verk út fyrir sviga og ljúka því.

Við vitum að það eru auðvitað gerðar miklar kröfur og allir vilja betri og bættari samgöngur. Þó að mönnum þyki kannski að komnar séu góðar samgöngur á höfuðborgarsvæðið þá verður alltaf ákall um enn þá betri samgöngur eftir því sem fólkinu fjölgar. Þá vilja nú oft þessi litlu svæði gleymast, ég tala nú ekki um héraðs- og tengivegi upp um sveitir eins og sveitir Borgarfjarðar þar sem ferðaþjónusta er vaxandi grein og ferðamannastraumur hefur aukist mikið. Þar verður að gera bragarbót á. Ferðaþjónusta bænda er að styrkjast og eflast. Við verðum auðvitað að ljúka malbikun og frágangi á þessum vegum og gera það með einhverri reisn. Við megum ekki ýta þessu ekki endalaust á undan okkur og halda svo að við getum tekið áfram á móti ferðamönnum þegar fjöldi þeirra sem kemur hingað og heimsækir okkur verður kannski milljón á næsta ári og vegakerfið gefi ekkert eftir.