144. löggjafarþing — 50. fundur,  16. des. 2014.

fjárlög 2015.

1. mál
[20:43]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ber er hver að baki nema sér bróður eigi og ég læt hv. þm. Steingrím J. Sigfússon ekki frýja mér áræðis og djörfungar þegar við ofurefli er að glíma. Ég tek hjartanlega undir með hv. þingmanni að hérna er með rangindum farið og það sem hv. þingmaður las upp úr lögum færir mér heim sanninn um það að hér er a.m.k. verið að fara á ská við gildandi lög.

Nú er það svo að hv. þingmaður er hér manna reyndastur, hefur setið ákaflega lengi á þingi og hann veit að hann hefur sitthvað sem hann getur seilst til í því skyni að reyna að leiða fram hið rétta í þessu máli. Ég rifja það upp fyrir hv. þingmanni að í gær, það er ekki lengra síðan en í gær að við snerum bökum saman og særðum hér upp hæstv. fjármálaráðherra með þeim árangri að eftir að við höfðum flutt honum rök okkar féllst hann á mál okkar. Það leiddi til breytingar. Ég velti því fyrir mér úr því að slíkur hamur er runninn á hv. þingmann hvers vegna hann kemur ekki og ber af sínum alkunna skörungsskap í borðið og heimtar það að hæstv. menntamálaráðherra komi til fundar við Alþingi og láti uppi skoðun sína á því hvort hér sé að lögum farið. Með vinsemd og virðingu, hv. þingmaður.