144. löggjafarþing — 53. fundur,  20. jan. 2015.

hagvöxtur.

[14:07]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegi forseti. Það er ánægjulegt að geta glatt hv. þingmann og vonandi róað með því að benda honum á að það hefur þegar komið fram að að öllum líkindum hafi verið um að ræða skekkju í þeim tölum sem vísað er til sem mun leiðréttast þegar árið í heild er gert upp og hagvöxtur muni, rétt eins og spáð hafði verið, verða umtalsverður á árinu 2014 og raunar 2015 líka og líklega meiri en í flestöllum öðrum Evrópulöndum. Áhyggjur hv. þingmanns af hagvexti á Íslandi eru því algerlega óþarfar.

Hvað varðar viðvörunarbjöllur sem hv. þingmaður segir að hljómi hjá Hagstofu, Seðlabanka og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum þá verður hv. þingmaður að útskýra betur við hvað hann á. Er hv. þingmaður að tala um hættu á þenslu og ef svo er, hvernig fer það þá saman við áhyggjur hv. þingmanns af því að hér væri enginn hagvöxtur?