144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:09]
Horfa

Elín Hirst (S):

Virðulegur forseti. Fyrir tæpum þremur vikum, um áramótin, tóku gildi mjög viðurhlutamiklar breytingar á skattkerfinu sem snúa að afnámi vörugjalda og breytingum á virðisaukaskatti. Þessar breytingar eru mér mikið ánægjuefni og ég lít á þær sem fyrsta skrefið í meiri háttar breytingum sem hægt er að ráðast í í skattkerfinu með það að markmiði að lækka skatta og einfalda skattkerfið ekki hvað síst, gera það opnara og gagnsærra. Þá vil ég sérstaklega nefna það sem ánægjulegast er við breytingarnar, það að þær byggja á því að hér er aukinn kaupmáttur almennings. Til að þær breytingar sem urðu um áramótin nái þó þeim árangri sem þær eiga að ná vil ég benda á að neytendur verða að vera afskaplega vel á verði fyrir því að þessar breytingar skili sér rétt í vöruverði og í verðbreytingum á vöru og þjónustu. Þá er gott að hafa í huga að bæði Neytendasamtökin og ASÍ hafa ljáð þessu máli gott lið með því að vera tilbúin að taka við ábendingum frá neytendum, sem ráða þarna ferðinni, um verðbreytingar, bæði um það sem jákvætt er, það sem vel er gert, og eins það sem miður fer. Ég vil sérstaklega benda í því sambandi á vef sem heitir vertuaverdi.is.