144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:11]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Í fréttum hefur komið fram að menntamálaráðherra hefur sett fram þá hugmynd að sameina þrjá háskóla, Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri, Háskólann á Hólum og Háskólann á Bifröst, í nýja sjálfseignarstofnun með forstöðumanni á hverjum stað en með sameiginlegri yfirstjórn. Með þessum hugmyndum er verið að færa tvær opinberar stofnanir yfir í einkarekstur og auðvelda þar með ákvarðanir um að ráða og reka starfsfólk. Ekkert opinbert samráð hefur verið haft við skólastjórnendur eða starfsfólk um þessar hugmyndir, ekkert liggur fyrir um faglegan ávinning eða samlegðaráhrif þessara skóla sem átt hafa vissulega í miklum fjárhagserfiðleikum, en mikil samstaða hefur hingað til ríkt með þingmönnum Norðvesturkjördæmis og heimamönnum um að standa vörð um öflugt skólastarf háskólanna í kjördæminu. Það tókst að styrkja eitthvað fjárhagsstöðu þessara háskóla við síðustu fjárlagagerð en vissulega þurfti að koma meira til og bundu menn vonir við að áfram yrði unnið í þeim málum.

Sjö umsóknir bárust um rektorsstöðu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri en valnefnd hefur ekki enn tilkynnt hver hlýtur stöðuna. Í ljósi þessara hugmynda hefur maður vissulega áhyggjur. Allt þetta umrót hefur mikil áhrif á starfsfólk sem hélt að það væri að skapast eitthvert öryggi. Um er að ræða hátt í 100 manns í þessum þrem skólum. Það þarf að skapa þarna stöðugleika til framtíðar um skólastarfið, það er mjög brýnt, og mig langar að spyrja hv. þm. Ásmund Einar Daðason hvort hann styðji þessar hugmyndir ráðherra um einkavæðingu eða einkarekstur þessara tveggja opinberu háskóla (Forseti hringir.) með tilheyrandi skólagjöldum og óvissu um framtíð skólanna.