144. löggjafarþing — 54. fundur,  21. jan. 2015.

Menntamálastofnun.

456. mál
[17:14]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get fullvissað hv. þingmann um að það verður nóg eftir af verkefnum í ráðuneytinu. Með þessu er verið að skerpa á hlutverki ráðuneytisins og hlutverki þessarar stofnunar sem fer með ýmis málefni sem snúa beint að stjórnsýslunni. Fyrir þessu eru fordæmi í okkar ríkisrekstri sem ég held að séu í sjálfu sér ágæt.

Hvað varðar ábyrgðina þá er það svo að aldrei er hægt að taka ábyrgðina af ráðuneytinu af því ráðuneytið ber enga ábyrgð, eins og hv. þingmaður þekkir fullvel, það er ráðherrann sem ber ábyrgðina. Það er meðal annars þess vegna sem ég tel skynsamlegt að hafa ekki sérstaka stjórn yfir þessari stofnun vegna eðlis þeirra verkefna sem þar eru, þannig að það sé alveg skýrt að það er ráðherrann sem ber ábyrgðina, það er aldrei hægt að flytja hana neitt annað. Viðkomandi einstaklingur sem gegnir því embætti hlýtur að bera þá ábyrgð með sama hætti og áður, það er ekki hægt að skjóta sér undan því.

Hvað varðar gögn og birtingu þeirra og samstarf við Hagstofu þá má kannski líta svo á, hvað varðar gagnaöflun um menntakerfið, að það sé verkefni Hagstofunnar að halda utan um hina stóru mynd, hina þjóðhagslegu þætti menntakerfisins, en þessi stofnun mundi frekar afla sérhæfðari gagna um einstaka þætti menntakerfisins sem ég tel að við þurfum að bæta okkur í til að bæta stefnumótun hjá okkur og auka gæði í menntakerfinu.

Aftur á móti er nauðsynlegt að Hagstofan og þessi stofnun vinni náið og þétt saman. Í frumvarpinu eru síðan ákvæði sem eru mjög skýr um rétt þessarar stofnunar til að kalla eftir gögnum, meðal annars frá skólum og rekstraraðilum skóla. Misbrestur hefur verið á því, gögnum hefur stundum verið skilað seint og illa. Þarna er sérstaklega kveðið á um þann lagagrunn sem þarf að vera til staðar (Forseti hringir.) til að kalla eftir mikilvægum gögnum.