144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

breytingartillaga atvinnuveganefndar við rammaáætlun.

[10:53]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti ætli að boða til fundar en mér hefði fundist í ljósi reynslunnar, af því að við tókum þessa umræðu í nóvember, að hæstv. forseta hefði átt að vera fullkomlega ljóst hvert þessi tillaga meiri hluta atvinnuveganefndar mundi leiða okkur. Við samþykktum samhljóða lög um rammaáætlun þar sem ferlið er ákveðið, þ.e. hvernig við ætlum að fara með tillögur um virkjunarkosti sem fram koma. Meiri hluti atvinnuveganefndar ætlar að koma með einhverja hugmynd og setja hana í umsagnarferli sem á síðan að fara í þingsályktunartillögu um allt annað mál sem er um einn virkjunarkost. Þarna er verið að tala um fimm og það eru bara tveir flokkar í rammaáætlun, nýtingarflokkur og verndarflokkur. (Forseti hringir.) Biðflokkurinn er úrvinnsluflokkur og það er ákveðið ferli sem er lögbundið sem á að fara til að flokka virkjunarkosti.