144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

samgöngumál.

[11:50]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að ræða við hæstv. innanríkisráðherra um samgöngumál og býð hana velkomna til starfa. Mig langar að heyra frá henni hvað líði samgönguáætlun en eins og ég skil það þá hefur hún verið í vinnslu, áætlun sem á að gilda frá árinu 2013–2016. Hvenær mun sú samgönguáætlun muni liggja fyrir, og tólf ára áætlun, hvenær mun hún líta dagsins ljós?

Það olli vissulega miklum vonbrigðum hve litlir fjármunir voru lagðir til samgöngumála í fjárlagafrumvarpinu. Áætlun hafði gert ráð fyrir 23 milljörðum í heild en það urðu ekki nema um 20 milljarðar. Færðir voru fjármunir úr nýframkvæmdum í viðhald og snjómokstur í stað þess að fjármagna þá þætti, sem vissulega er orðin mikil uppsöfnuð þörf fyrir, með auknum fjárveitingum beint úr ríkissjóði. Það hefur komið fram að þau verkefni sem ekki eru samningsbundin séu í algjörri óvissu og þá nefni ég verkefni eins og Dýrafjarðargöng og uppbyggingu Dynjandisheiðar. Hvenær verða þær framkvæmdir boðnar út?

Einnig spyr ég um seinni áfanga í uppbyggingu á Vestfjarðavegi 60 um Gufudalssveit og hvar það mál allt er statt og tillaga um endurskoðun á veglínu. Ég nefni Dettifossveginn. Eins og við vitum eru góðar samgöngur forsenda þess að hægt sé að sameina stofnanir eins og heilbrigðisstofnanir, lögreglu- og sýslumannsembætti. Við þekkjum það eins og á Vestfjörðum að þar ganga slíkar sameiningar hreinlega ekki upp ef samgöngur eru eins og þær eru í dag. Það er óásættanlegt.

Ég vil nefna það að í lögum um samgönguáætlun er meðal annars kveðið á um að hún eigi að stuðla að jákvæðri byggðaþróun og þá vil ég heyra viðhorf hæstv. ráðherra til (Forseti hringir.) þeirra mála.