144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

ummæli þingmanna í fundarstjórnarumræðu.

[12:22]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf):

Herra forseti. Ég ætla að ítreka beiðni mína um að fundi verði frestað þar til farið hefur verið yfir málin. Þetta er tvíþætt vandamál sem við erum að ræða. Annars vegar er það þannig að stórmál er tekið úr nefnd án þess að það hafi svo mikið sem verið sett á dagskrá. Fyrir okkur sem störfum hér í þinginu — ég er formaður í velferðarnefnd og mér hugnast ekki að það séu vinnubrögðin að setja mál sem á að taka út ekki á dagskrá. Ef það má vil ég upplýsingar um það og þá skulum við hætta að vera með dagskrá hér í þinginu í nefndastörfum. Þá skulum við bara hafa „open floor“, svo að ég sletti.

Hins vegar kom umhverfis- og auðlindaráðherra hér með tillögu frá verkefnisstjórn í formi þingsályktunar um einn kost í nýtingu. Hér er farið fram hjá öllum reglum við úttöku með þessum óeðlilega hætti, (Forseti hringir.) fram hjá öllum reglum sem við höfum sett. Annars vegar er verið að ganga á svig við góð vinnubrögð í þinginu (Forseti hringir.) um þingsköp og hins vegar er verið að ganga fram hjá löggjöf um rammaáætlun.

Herra forseti. Ég óska eftir því að fundi verði frestað þar til búið er að fara yfir þessi mál.