144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

úrskurður forseta.

[15:26]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður og formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins sagði áðan að henni fyndist rétt að fram kæmi að í síðari umr. um þingsályktunartillögur hefðum við hálftíma til umráða og síðan endalausar fimm mínútur. En það er kannski einmitt það sem við viljum forðast. Það er einmitt sá bragur sem ríkti á þinginu á síðasta kjörtímabili og jók ekki virðingu þess. Vissulega er það rétt, við höfum endalausar fimm mínútur, en ég spyr: Finnst Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum það vera góð málsmeðferð í jafn stóru máli og hér er undir? Við erum með verkefnisstjórn. Ég get ekki skilið til hvers hún var þá sett. Til hvers var rammaáætlun gerð? Hverju á hún að mæta? Er hv. þm. Jón Gunnarsson til þess bær að leggja faglegt mat á að gott sé að senda fjóra virkjunarkosti til viðbótar til umsagnar þegar verkefnisstjórnin hefur sagt að hún telji ekki nægilega mikið faglegt mat liggja þar að baki enn þá og fyrrverandi ráðherra umhverfismála tók undir það? (Forseti hringir.) En hv. þm. Jón Gunnarsson veit betur og sendir þess vegna (Forseti hringir.) fjóra kosti til viðbótar (Forseti hringir.) til umsagnar og telur að (Forseti hringir.) nægileg umræða hafi farið fram um málið.