144. löggjafarþing — 55. fundur,  22. jan. 2015.

kosning níu manna og jafnmargra varamanna í stjórn Ríkisútvarpsins, fjölmiðils í almannaþágu, til eins árs, að viðhafðri hlutfallskosningu, skv. 9. gr. laga nr. 23/2013 um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu.

[16:21]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (um atkvæðagreiðslu):

Herra forseti. Ég verð að segja að hún vekur mér eiginlega orðið óhug, þessi harka stjórnarliða í því að verja það að þeir þurfi einhvern aukinn meiri hluta í stjórn útvarpsins. Hvað liggur þarna að baki? Þeir hefðu meiri hluta þó að fulltrúi Pírata kæmi þarna inn og þetta finnst mér veikja lýðræðið og það sem við erum að reyna að gera, þ.e. að auka fulltrúalýðræðið. Við vitum að núverandi stjórnvöld hafa mikinn meiri hluta og þau munu hafa sinn meiri hluta áfram í stjórn Ríkisútvarpsins fyrst þeir tóku þá ákvörðun að breyta henni í pólitíska stjórn sem var búið að aftengja pólitíkinni á síðasta kjörtímabili. Þessi mikla harka þeirra gagnvart því að hafa ekki þessa breidd finnst mér ógnun gagnvart fulltrúalýðræði og ekki vera þinginu til sóma. Ég skora líka á þingmenn stjórnarandstöðunnar að líta aðeins inn á við og vita hvort þeir geti ekki staðið með því að allir flokkar hér (Forseti hringir.) eigi fulltrúa í stjórn Ríkisútvarpsins.