144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

úrbætur í húsnæðismálum.

[15:21]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf):

Virðulegi forseti. Það er óþarfi að hafa um það mörg orð hversu alvarlegt ástandið er á húsnæðismarkaði, sérstaklega hér á höfuðborgarsvæðinu og svo sem víðar á landinu; skortur á íbúðum, fjármögnun kaupa á íbúðarhúsnæði erfið og lítill aðgangur að leiguhúsnæði, leiga dýr. Það má til sanns vegar færa að heil kynslóð sé eiginlega að verða innlyksa og komist ekki til þess að eignast eða fá umráð yfir sinni fyrstu íbúð. Það eru löngu komnar fram tillögur um ýmsar úrbætur í húsnæðismálum en ég vildi spyrja hæstv. ráðherra um framkvæmd þeirra tillagna.

Fyrir löngu, fyrir meira en tveimur árum, komu fram tillögur um stofnstyrki frá ríki og sveitarfélögum vegna félagslegs húsnæðis. Það er ljóst að sveitarfélögin hafa áhuga á að koma verkefnum af stað en það stendur á því að ríkið komi að málum og leggi slíkan stuðning fram. Hvenær er að vænta ákvörðunar um það og lagaheimildar til þess að veita slíka styrki?

Í annan stað eru fyrir löngu komnar fram tillögur um eitt kerfi húsnæðisbóta þar sem myndarlega er bætt í núverandi kerfi húsaleigubóta. Nokkuð var gert að því leyti í fjárlögum í haust en meira þarf til. Það er mjög mikilvægt að marka strax stefnu um þetta sameiginlega kerfi með nýrri löggjöf. Hvenær er að vænta frumvarps um það?

Að síðustu: Þegar sveitarfélögin hafa áhuga á því að grípa til aðgerða á þessu sviði þá er mjög bagalegt þegar jafnlítið gerist hjá ríkisstjórninni og raun ber vitni. Þess vegna vildi ég hvetja ráðherra eindregið til að hraða framlagningu frumvarpa sem geta gert okkur mögulegt að vinda bráðan bug að úrlausn á þessu erfiða ástandi.