144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

lærdómur af lekamálinu.

[15:30]
Horfa

forsætisráðherra (Sigmundur Davíð Gunnlaugsson) (F):

Virðulegur forseti. Fyrst er þess að geta að forsendur spurningar hv. þingmanns eru rangar, í meginatriðum. [Hlátur í þingsal.] — Gott að geta glatt hv. þm. Árna Pál Árnason, það var tími til kominn.

Í fyrsta lagi veit ég ekki til þess að það hafi komið neitt fram um það að hv. þm. Hanna Birna Kristjánsdóttir, fyrrverandi innanríkisráðherra, hafi haft aðkomu að því að leka upplýsingum úr ráðuneytinu. Í öðru lagi hef ég aldrei haldið því fram að þjóðin ætti að læra af lekamálinu. Það kann að vera að fyrirsögn á frétt þar sem rætt var við mig hafi verið á þann hátt, en þegar hefur komið fram leiðrétting á því eins og hv. þingmaður mundi vita ef hann fylgdist betur með fjölmiðlum, enda hef ég iðulega varað við því að menn temji sér það sem er sérstaklega sósíalistum og fólki á sitt hvorum kantinum í pólitíkinni allt of tamt, að tala um þjóðina eins og einn einstakling og telja sig talsmenn þess einstaklings.

Menn eru komnir inn á vafasamar brautir þegar þeir fara að ræða um sjálfa sig sem talsmenn þjóðarinnar í heild og líta á þjóðina sem eina persónu, svo að spurning hv. þingmanns er röng.