144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

eftirlit með starfsháttum lögreglu.

450. mál
[17:10]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Helgi Hrafn Gunnarsson) (P):

Virðulegi forseti. Á undanförnum missirum hefur töluvert verið rætt um nauðsyn þess að komið verði á sjálfstæðu og óháðu eftirliti með starfsemi lögreglu. Tilefni þessarar umræðu eru margþætt og má þar nefna harðræði við handtökur, misnotkun á gagnagrunnum lögreglunnar, framkvæmd hlerana, lögmæti húsleita, lögmæti leitar á persónu fólks og svo mætti áfram telja.

Fyrir rúmu ári ritaði umboðsmaður Alþingis innanríkisráðherra bréf með ábendingum um úrbætur þegar kemur að eftirliti með störfum lögreglu. Umboðsmaður bendir á mikilvægi þess að aðili óháður lögreglu geti rannsakað tilvik þar sem borgarar hafa orðið fyrir alvarlegu tjóni á líkama eða eignum. Þá séu brotalamir á því að borgarar geti borið fram kvartanir vegna háttsemi lögreglu án þess að endilega sé um refsivert athæfi að ræða. Í svarbréfi innanríkisráðherra frá síðastliðnu sumri kemur fram að skipaður verði starfshópur til að fara yfir þessi mál. Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvenær niðurstöðu þess starfshóps sé að vænta.

Síðari spurning mín til hæstv. innanríkisráðherra lýtur að sjálfstæði eftirlitsins. Það er mikið atriði að meðferð mála sem varða kvartanir undan störfum lögreglumanna og starfsháttum lögreglu séu rannsakaðir af óháðum aðila sem er ótengdur lögreglunni. Almenningi er nauðsynlegt að slík mál fái hlutlausa málsmeðferð sem skili réttlátri niðurstöðu. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi skal beina kærum vegna meintrar refsiverðrar háttsemi lögreglumanna til ríkissaksóknara sem fer með rannsókn þeirra. Embætti ríkissaksóknara hefur hins vegar þann háttinn á að leita til lögreglunnar og fela rannsóknina lögreglustjórum í öðru umdæmi en því sem sakborningur starfar við og þeim falið að annast rannsóknina eða hluta hennar. Af þessu leiðir að það verða alltaf starfandi lögreglumenn sem annast rannsókn á meintum brotum starfssystkina sinna. Slíkt fyrirkomulag vekur óhjákvæmilega efasemdir um að hlutlægni sé gætt við framkvæmd rannsóknanna. Kærur á hendur lögreglumönnum koma enn fremur oftar en ekki frá einstaklingum sem lögreglan hefur þurft að hafa afskipti af og hluti þessa fólks hefur ítrekað komið við sögu lögreglu. Þetta kann að leiða til þess að kærandinn njóti ekki sannmælis við rannsóknina. Guðmundar- og Geirfinnsmálin svokölluðu eru eflaust þekktasta dæmið um þetta.

Ég vil því spyrja hæstv. innanríkisráðherra hvort ráðgert sé að um innra eftirlit verði að ræða eða hvort stefnt sé að því að eftirlitið verði alfarið sjálfstætt og óháð löggæsluyfirvöldum.