144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

skipun sendiherra.

226. mál
[17:51]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Guðmundur Steingrímsson) (Bf):

Virðulegur forseti. Mig langar að vekja athygli á máli sem mér finnst ekkert allt of mikið rætt í þingsal. Ég hef að minnsta kosti ekki orðið var við mikla umræðu hér í þingsal um þetta þótt hennar gæti í þjóðfélaginu. Það varðar skipan sendiherra og hvernig sendiherrar eru skipaðir á Íslandi. Ég hef lagt fram fyrirspurn til hæstv. utanríkisráðherra í þremur liðum:

1. Hvaða faglegu kröfur liggja til grundvallar skipun sendiherra?

2. Hvernig er faglegu mati á hæfi háttað við slíka skipun?

3. Hvernig er ferlið við skipun sendiherra?

Það er ekki að ástæðulausu sem ég spyr. Mér finnst það hvernig skipun sendiherra er háttað á Íslandi stinga í augu. Við erum svolítið óvenjuleg, Íslendingar, í þessum málum miðað við aðrar Norðurlandaþjóðir. Það er ágætlega rakið í tveimur greinum sem Svala Guðmundsdóttir, lektor í mannauðsstjórnun við viðskiptafræðideild háskólans, hefur skrifað undanfarið hvernig Íslendingar eru algjörlega sér á báti í samanburði við Norðurlandaþjóðirnar í þessum málum. Í Danmörku, Finnlandi og Noregi eru þessar stöður auglýstar innan utanríkisþjónustunnar og við tekur ákveðið faglegt ferli sem menn vita hvernig er, ákveðinn framgangur innan utanríkisþjónustunnar er hafður í heiðri og það er mjög óalgengt að fyrrverandi stjórnmálamenn séu skipaðir sendiherrar.

Hér virðist þetta vera þannig, a.m.k. þegar maður skoðar lögin og skoðar reynsluna, að það er ráðherra sem nánast hefur alræðisvald yfir því hver er skipaður sendiherra. Á undanförnum árum hafa átta formenn stjórnmálaflokka verið skipaðir sendiherrar, svo dæmi sé tekið. Þetta er óvenjulegt. Þeir staldra yfirleitt stutt við í utanríkisþjónustunni. Þeir taka stöðuna erlendis og hætta svo í utanríkisþjónustunni eftir að þeir koma heim.

Meginreglan um opinberar stöður eða stöður hjá ríkinu er að þær eru auglýstar. Það er lögbundið. En hins vegar eru sendiherrar undanþegnir skyldunni um auglýsingar. Ég mundi telja að fyrst þeir eru undanþegnir skyldunni um auglýsingar þá hvíli ríkari skylda á löggjafanum að útskýra af hverju svo sé. Mér finnst skrýtið að í lögum um utanríkisþjónustuna þar sem er undanþáguákvæði fyrir auglýsingunum eru samt ekki tilgreindar neinar faglegar kröfur eða neitt faglegt ferli útlistað um það hvernig eigi að ráða sendiherra.

Ég er með hérna í spjaldtölvunni minni auglýsingu sem var birt á vef norska utanríkisráðuneytisins um sendiherrastöðu á Íslandi. Þar eru tiltekin átta fagleg skilyrði um kunnáttu og hitt og þetta, sex skilyrði um persónulega eiginleika, sjö punktar um það hvað felst í (Forseti hringir.) starfinu og þar fram eftir götunum.

Mig langar að spyrja (Forseti hringir.) hæstv. utanríkisráðherra: Hvernig er staðið (Forseti hringir.) að skipun sendiherra hér á landi og má hugsanlega breyta því ferli?