144. löggjafarþing — 56. fundur,  26. jan. 2015.

umönnunargreiðslur.

409. mál
[18:06]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigríður Ingibjörg Ingadóttir) (Sf):

Hæstv. forseti. Á síðasta kjörtímabili skilaði starfshópur um greiðslur til foreldra fatlaðra og langveikra barna niðurstöðum til velferðarráðherra. Í hópnum sátu fulltrúar Þroskahjálpar, Umhyggju, Öryrkjabandalags Íslands og Tryggingastofnunar ríkisins. Þau lögðu til að skipuð yrði nefnd sem gerði tillögu að frumvarpi eða heildstæðum lögum um fjárhagslegan stuðning ríkisins við fjölskyldur fatlaðra og langveikra barna og að greiðslur á grundvelli nýrra laga kæmu í stað umönnunargreiðslna sem greiddar eru til foreldra samkvæmt lögum um félagslega aðstoð og greiðslu til foreldra langveikra og fatlaðra barna.

Munurinn á þessum tveimur greiðslutegundum er nokkur og jafnframt geta foreldrar átt rétt á báðum tegundum samtímis þó það sé sjaldgæft. Foreldragreiðslum er fyrst og fremst ætlað að koma til móts við tekjuleysi foreldris vegna umönnunar barns og eru greiðslurnar tekjutengdar og skattskyldar. Þessar greiðslur eru fátíðar eða tiltölulega fátíðar og ná til 92 móttakenda árið 2013 og voru 92 millj. kr. Umönnunargreiðslunum er hins vegar ætlað að koma til móts við aukinn kostnað vegna sérstöðu barnsins svo og aukna umönnun án þess að sú umönnun leiði endilega til þess að fólk detti alfarið út af vinnumarkaði eða leggi niður nám. Þessar greiðslur eru greiddar í nokkrum flokkum og í mismunandi hlutfalli en eru ekki tekjutengdar og skattskyldar. Móttakendur þeirra greiðslna voru 2.149 árið 2013 og fengu samtals um 1.500 millj. kr.

Hagsmunasamtök hafa áhyggjur af hlutfallslegri fækkun þeirra sem fá greiðslurnar og lítilli hækkun þeirra miðað við aðrar greiðslur TR á síðastliðnum árum.

Þegar foreldragreiðslum var komið á árið 2006 átti í kjölfarið að endurskoða samspil þeirra við umönnunargreiðslur. Starfshópurinn sem ég vitnaði til áðan er sammála því og telur æskilegt að samræma umönnunargreiðslur og foreldragreiðslur í eitt heildstætt kerfi þar sem í sérlögum verði kveðið á um fjárhagslegt stuðningskerfi ríkisins við foreldra langveikra og fatlaðra barna til umönnunar útgjalda og tekjutaps foreldra á vinnumarkaði og bætur vegna umönnunarinnar til þeirra sem geta unnið.

Þessi starfshópur skilaði lokaskýrslu með markmiðum fyrir þennan nýja flokk greiðslna þar sem þær væru samræmdar, þessar tvær tegundir. Það yrði dregið úr vægi greininga og kerfið byggt á upplýsingum um raunverulega umönnun og kostnað og það skilgreint betur hvað er greitt og skilið á milli greiðslna vegna umönnunar, kostnaðar og tekjutaps. Hópurinn lagði síðan fram mótaða hugmynd um hvernig greiðslum yrði háttað.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra:

„Er unnið að endurskoðun umönnunargreiðslna skv. 4. gr. laga um félagslega aðstoð?“ — Og ætti eiginlega að bæta við: foreldragreiðslna. — „Ef svo er, hvert er markmið endurskoðunarinnar og hvenær er áætlað að tillögur um breytingar liggi fyrir?“