144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Ég vil vekja athygli á góðri samantekt um rammaáætlun sem upplýsingaþjónusta Alþingis hefur tekið saman og dreift hefur verið til allra alþingismanna. Umfjöllun sem er um tilurð rammaáætlunar og hvernig staðið er að mati á virkjunarkostum og stjórnun verkefnisins er gott innlegg í umræðuna um nýlega ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar þar sem stjórnmálamenn handvelja virkjunarkosti sem bíða úrvinnslu faglegrar verkefnisstjórnar og leggja til að Alþingi samþykki að færa þær í nýtingarflokk. Þetta er gert þrátt fyrir að verkefnisstjórnin hafi sagt að bæði þyrfti fleiri gögn og lengri tíma til að hún treysti sér til að leggja til flokkun virkjunarkostanna. Þeir sem styðja þessa ákvörðun meiri hluta atvinnuveganefndar verjast gagnrýni með því að segja að með samþykkt þingsályktunartillögu um rammaáætlun á síðasta kjörtímabili hafi sáttin verið rofin. Enginn þeirra hefur hins vegar óskað eftir því að sú sem hér stendur fari yfir hvernig unnið var úr umsögnum um drögin að þingsályktunartillögu sem hafði verið 12 vikur í umsagnarferli. Við, þ.e. ég sem iðnaðarráðherra og hv. þm. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra, fórum í gegnum á þriðja hundrað umsagnir og lögðum aðeins til, og eðlilega, að þau gögn sem komu þar fram og verkefnisstjórnin hafði ekki fjallað um áður færu í frekari skoðun hennar.

Margir vildu hafa áhrif á þá ákvörðun okkar en þó að ráðherra sé ekki bundinn af niðurstöðu verkefnisstjórnar kom ekkert annað til greina af okkar hálfu en að vinna málið á faglegan og gegnsæjan hátt. Þess vegna tókum við það ekki í mál þótt þrýst væri fast að færa virkjunarkosti á milli þeirra tveggja flokka sem rammaáætlun gerir ráð fyrir, nýtingarflokks og verndarflokks. Andi laganna um rammaáætlun var okkar leiðarljós en það skemmdarverk á rammaáætlun sem meiri hluti atvinnuveganefndar leggur nú til í óþökk hæstv. umhverfisráðherra er sannarlega ekki í anda þeirra laga. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)