144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil einnig ræða um kjarabaráttu láglaunafólks í landinu. Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfugerð sína um 40% hækkun á næstu þremur árum til þeirra sem búa við lægstu laun. Þykir eflaust einhverjum það vera of mikið í lagt. En hvað þýðir þetta? Eftir þrjú ár væri þessi hópur hugsanlega að fá kannski um 240 þús. kr. útborgað eftir skatta. Gætum við hér inni lifað á því? Ég held varla. En þetta er það sem er verið að tala um. Það er auðvitað ekkert óvanalegt að Samtök atvinnulífsins hrópi „úlfur, úlfur“, að þetta geti ekki gengið, óðaverðbólga fari af stað og allt leggist á hliðina. Og Seðlabanki Íslands tekur undir það með því að segja að það sé eingöngu hægt að hækka laun um 3,5% á milli ára. En situr ekki einhver hópur eftir sem þarf að mynda samstöðu um að rífa upp úr þessu hjólfari sem er óásættanlegt og er ekki mannsæmandi að bjóða fólki upp á?

Það var fróðlegt erindi um daginn í sjónvarpinu þar sem prófessor við Harvard-háskóla í Bandaríkjunum talaði um ójöfnuð í Evrópu, en hann sagði að ójöfnuður hefði aukist eftir 1980. Hverjar voru orsakirnar? Það var stefna stjórnvalda og að verkalýðshreyfingin veiktist. Það er nákvæmlega það sama sem hefur verið að gerast hér undanfarin ár. Þessi mikla misskipting er að aukast hér á landi og það er vegna stefnu stjórnvalda og að verkalýðshreyfingin hefur ekki verið nógu öflug til þess að standa vörð um velferðarkerfið sem hún sjálf barðist fyrir og kom á koppinn og forfeður okkar stóðu í baráttu fyrir.

Ég er því mjög ánægð með að verkalýðshreyfingin í landinu reisir þessar kröfur núna og ætlar að berjast fyrir bættum kjörum í landinu með því fólki sem þarf að standa við hliðina á og ætlar að berjast fyrir (Forseti hringir.) betri afkomu þess hóps sem við höfum (Forseti hringir.) skilið eftir allt of lengi.