144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[15:05]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég tók þetta dæmi hérna áðan og ég er sammála hv. þingmanni að þessi leki á störfum til höfuðborgarsvæðisins er óþolandi, við getum verið sammála um það. En hvað varðar faglegt mat þá sáum við til dæmis með Fiskistofu að það er bara hörð og klár ákvörðun ráðherra án þess að hann virðist hafa ráðfært sig við aðra hvað það hefur í för með sér. Missum við mannauð?

Auðvitað veit ég að við viljum sjálfsagt öll vera þar sem við erum og treg til að færa okkur um set og allt það. En það þarf að fá í lið með sér fólk sem veit um málaflokkinn, hefur til þess reynslu eða eitthvað slíkt, það þarf ekki endilega að vera starfsfólk viðkomandi stofnunar, alls ekki. En eins og hv. þingmaður nefndi áðan varðandi þær tvær stofnanir sem verið er að sameina og færa milli kjördæma, það er kannski hægt að keyra hér á milli og fólk þarf ekki að flytjast búferlum þó að það fari upp í Ögurhvarf úr Borgartúni, en það getur vissulega raskað einhverju, það hefur líka komið fram og mótbárur hafa komið fram við því.

Þess vegna segi ég að mér finnst ástæða til þess, ef þetta færi í meðför Alþingis, að lagt yrði fram frumvarp af hálfu ráðherra um að tiltekin stofnun mundi flytjast eitthvert, það færi í umræður hér, það yrði sent til umsagnar hjá þar til bærum aðilum sem gætu eitthvað haft um málefni viðkomandi stofnunar að segja. Ekki starfsfólkið sjálft heldur málefni stofnunarinnar, hverja snertir það? Það gæti alveg orðið niðurstaðan að heppilegt væri að flytja, og það kostar jú yfirleitt alltaf eitthvað að flytja. Það er kannski það sem ég er að meina með því þegar ég er að tala um faglegt mat en ekki einhendis ákvörðun tiltekins ráðherra.