144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[16:38]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég er algjörlega sammála þingmanninum og ég held að einmitt það að ekki hafi verið skipuð ný nefnd af hálfu forsætisráðherra segi okkur að við eigum að varast að gera breytingar í þessa áttina, því að það muni ekki á neinn hátt bæta umgjörð siðareglna og eftirfylgni með þeim innan Stjórnarráðsins.

Það kom einmitt fram á opnum fundi með umboðsmanni Alþingis í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd; þar hjó ég eftir því að hann vísaði í það að frumvarp væri inni og bað þingmenn um að hyggja að því. Þetta var mjög hlutlaus yfirlýsing og ég ætla ekkert að gera umboðsmanni Alþingis upp skoðanir, en hann vakti sérstaka athygli þingmanna á þessu og hvatti þá til að hyggja að þessu frumvarpi.

Ég ætla líka að segja að ég á það við sjálfa mig og kjósendur mína að vera heiðarleg í störfum mínum, dylja ekki hagsmunaupplýsingar sem geta haft áhrif á störf mín og geri það. En ég er hluti alþingismanna sem eru hér á Alþingi og við njótum sem stofnun lítils trausts. Og mér finnst vont þegar við fáum ekki samþykktar siðareglur og að þeir sem ég hef starfað í umboði fyrir viti að ég sé bundin af því að fara að þessum siðareglum. Það er vont. Það er hluti af því að efla traust á Alþingi, og það er vont þegar þeir sem koma í veg fyrir að við getum sett slíkar reglur leggja síðan til á vettvangi ríkisstjórnarinnar að dregið sé úr kröfum um eftirfylgni og umbætur í siðareglum fyrir Stjórnarráðið.