144. löggjafarþing — 57. fundur,  27. jan. 2015.

Stjórnarráð Íslands.

434. mál
[17:56]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf):

Virðulegur forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um breytingu á lögum um Stjórnarráð Íslands. Í skýringartexta með frumvarpinu segir, með leyfi forseta:

„Þær meginbreytingar sem lagðar eru til í frumvarpinu miða fyrst og fremst að því að auka sveigjanleika í starfsemi Stjórnarráðs Íslands þannig að stjórnvöldum verði betur kleift að bregðast við nýjum áskorunum í starfi stjórnvalda með hagkvæmni að leiðarljósi og til að skipuleggja starf sitt í samræmi við áherslur í stjórnarstefnu og það sem faglegast og hagkvæmast er talið á hverjum tíma. Lagasetningin hefur því einkum þau áhrif að hún eykur sveigjanleika í starfi Stjórnarráðsins.“

Nú er það svo, virðulegi forseti, að ég get vel tekið undir það að ágætt sé í einhverjum tilvikum að auka sveigjanleika í starfi Stjórnarráðsins, en það er mikilvægt að rifja upp umfjöllun um stjórnsýslu í ítarlegri skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis og í umfjöllun skýrslu þingmannanefndarinnar sem fjallaði um skýrslu rannsóknarnefndarinnar. Í skýrslu þingmannanefndarinnar er fjallað um athugasemdir rannsóknarnefndarinnar og þar kemur fram mikilvægi þess að ráðist verði í endurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands. Það var gert. Sú endurskoðun var vel undirbúin og samin í forsætisráðuneytinu í samráði við sérfræðinga á sviði stjórnskipunar- og stjórnsýsluréttar og byggði á rannsóknarskýrslunni og þingmannaskýrslunni. Hún var einnig samin út frá skýrslu sem ber heitið Samhent stjórnsýsla sem gefin var út í desember 2010. Í inngangi þeirrar skýrslu segja sérfræðingar sem skipuðu nefndina sem skrifaði hana, með leyfi forseta:

„Verkefni nefndarinnar er að gera tillögur að heildarendurskoðun á lögum um Stjórnarráð Íslands í þeim tilgangi að ná fram markmiðum um að auka sveigjanleika milli ráðuneyta og stofnana, tryggja að þekking og mannauður sé nýttur til fulls og auka gagnsæi í vinnubrögðum Stjórnarráðsins og upplýsingastreymi til almennings.“

Breytingarnar sem gerðar voru árið 2011 og fengu mikla umfjöllun og umræðu í þingsal voru einmitt gerðar til þess að auka sveigjanleikann. Sama markmið er með þessum breytingum sem hér eru settar fram. Þær eru helstar: Almenn heimild ráðherra til að ákveða aðsetur stofnana, aukinn sveigjanleiki við skipulagningu ráðuneyta og aukinn hreyfanleiki starfsmanna ásamt öðrum breytingum sem eru smærri eða hafa fengið minni umfjöllun á þessu stigi málsins en munu kannski koma hér frekar til umræðu þegar frumvarpið kemur úr nefnd til 2. umr.

Almenn heimild ráðherra til þess að ákveða aðsetur stofnana hefur fengið mesta umræðu og vakið upp mestan óróa í kringum þetta frumvarp. Menn hafa haft uppi stór orð. Mig langar áður en lengra er haldið að vitna í athugasemdir BHM um frumvarpið, sem félagið hefur birt. Ég vil vitna í þær, með leyfi forseta:

„BHM telur rétt að vald til þess að ákveða staðsetningu og flutning ríkisstofnunar eigi að vera hjá Alþingi og skal sú ákvörðun tekin af Alþingi hverju sinni. Með því móti verður komist hjá því að ráðherrar taki geðþóttaákvarðanir um flutning ríkisstofnana. Slíkar ákvarðanir geti komið mjög hart niður á starfsmönnum og fjölskyldum þeirra. Það er því ekki í samræmi við lýðræðisleg vinnubrögð að fela ráðherrum einræðisvald til að ákveða hvar slíkar stofnanir skuli vera eins og gert er ráð fyrir í frumvarpinu. Breytingin sem felst í frumvarpinu eykur hættu á lausung og getur ýtt undir að við hver ríkisstjórnarskipti og/eða ráðherraskipti, yrðu gerðar breytingar á stofnunum, þær sameinaðar, lagðar niður eða fluttar til með tilheyrandi kostnaðarauka, raski og óþægindum sem beinlínis gætu stefnt starfsöryggi starfsmanna í hættu og vegið að réttindum þeirra að öðru leyti. Ákveðin festa er nauðsynleg í sambandi við stofnanir framkvæmdarvaldsins. Slík festa skiptir máli fyrir alla þá sem hagsmuna eiga að gæta, hvort sem um er að ræða einstaklinga og hagsmunahópa sem samskipti eiga við ráðuneytin, starfsmenn þeirra eða opinberar stofnanir sem undir þau heyra.“

Í umsögn BHM er ítrekað að eðlilegt sé að ákvörðunarvaldið sé hjá Alþingi og sá valdatilflutningur sem felist í frumvarpinu sé í ósamræmi við þau viðhorf sem uppi hafi verið í samfélaginu á síðustu árum, að efla beri löggjafarvaldið og Alþingi sem stofnun og að draga að sama skapi úr áhrifum framkvæmdarvaldsins. Talað er um skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis til að styðja þetta sjónarmið BHM.

Virðulegur forseti. Ég tek undir þetta álit BHM og vara við því að þessi breyting verði gerð. Eins og fram hefur komið hér í dag og í umræðum um frumvarpið áður, þ.e. þegar breytingarnar á lögunum voru gerðar 2011, þá var skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis undir og aðrar skýrslur sem byggðu á henni. Þar er farið mjög ítarlega yfir mikilvægi þess að styrkja stjórnsýsluna og mikilvægi þess að þar sé ákveðinn sveigjanleiki og svo framvegis en grunntónninn var samt sá að lítil þjóð þurfi á formfestu og formlegum ferlum að halda í stjórnsýslunni enn frekar en stærri þjóðir. Það er út af kunningjatengslum sem eru um allt og hættunni á því að fólk freistist til þess að láta annað en fagleg og fjárhagsleg sjónarmið ráða.

Ég hef miklar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að þessi grein, verði hún að lögum, muni gera ráðherrum svolítið erfitt fyrir. Það getur líka verið gott fyrir stjórnanda að hafa ákveðin ferli að fara eftir sem ráðherra getur ekki vikið út af vegna þess að þau eru bundin í lög, en ef hann hefur frjálsari hendur er hann settur í ákveðinn vanda gagnvart kjósendum sínum í eigin kjördæmi. Hugsanlega gæti komið mikill þrýstingur á ráðherra um flutning.

Ég get nefnt sem dæmi, af því það hefur verið talað um það hér í dag, að flestir þingmenn úr Suðurkjördæmi eru á þingsályktunartillögu sem flutt hefur verið á þessu kjörtímabili og var líka flutt á síðasta kjörtímabili um að flytja Landhelgisgæsluna suður á Keflavíkurflugvöll. Ég er meðal annarra á þeirri þingsályktunartillögu og er því fylgjandi og tel mig hafa fyrir því bæði fagleg og fjárhagsleg rök. Það er búið að gera greiningar á þessu og niðurstaðan er komin en ég sem þingmaður og einn af flutningsmönnum þessarar þingsályktunartillögu er ekki sammála niðurstöðu þeirrar skýrslu. Ég gæti hugsað mér gott til glóðarinnar ef Suðurnesjamaður yrði innanríkisráðherra. Þá mundi ég auðvitað gera þá kröfu að hann mundi í skjóli svona opinnar heimildar drífa í því að flytja Landhelgisgæsluna á Keflavíkurflugvöll enda væri það vilji þingmanna kjördæmisins og kjósenda þar. Svona opin heimild býður því hættunni heim í litlu samfélagi, fyrir utan hvaða afleiðingar það hefur. Við höfum horft upp á fjaðrafokið og hvernig staðið hefur verið að þeirri hugmynd að flytja Fiskistofu norður í land. Ég hef sjálf átt heima á Akureyri. Það er gott að búa þar. Ég er ekki að gera athugasemdir við það að stofnanir séu fluttar út á land, en fyrir því verða að vera góðar, faglegar ástæður og fjárhagslegar. Það þarf að gefa því góðan tíma og ekki síst flytja stofnanir með umhyggju fyrir starfsfólki í huga og gefa því góðan tíma.

Auðvitað getur ríkisstjórn og ráðherrar haft það sem markmið að flytja stofnanir út á land og það er allt gott um það að segja, en það er mikilvægt að í kringum það sé ákveðið ferli, það sé ekki einhver hugdetta, eitthvað sem kemur ráðherranum vel í sínu kjördæmi eða forsætisráðherranum eða hvernig sem það nú er. Við þurfum að vera með ferla utan um þessa hluti sem við getum treyst og eru líklegir til þess að auka virðingu og traust á framkvæmdarvaldinu.

Við urðum vitni að því nýverið, virðulegur forseti, að sjávarútvegsfyrirtæki sem starfar úti á landi ákvað að breyta skipulagi sínu og bauð starfsfólkinu að flytja búferlum. Ég get alveg nefnt hvaða fyrirtæki þetta er, ég er auðvitað að tala um Vísi og ég er að tala um Grindavík. Nú er ég ekki að segja að það sé slæmt að búa í Grindavík, en það er hins vegar mikið álag fyrir fjölskyldur að þurfa að yfirgefa heimili sín til þess að halda vinnu sinni, ég tala nú ekki um á svæðum þar sem er ekki hægt að selja íbúðarhúsnæði á verði sem boðlegt er. (Gripið fram í: En þeir sem …?) Þetta er dæmi um einkafyrirtæki sem tekur störf af Vestfjörðum og Austfjörðum með skipulagsbreytingum og flytur til Grindavíkur. Það getur gert það því að lögin heimila því það þó að það hafi sérleyfi til þess að sýsla með auðlindir þjóðarinnar.

Þegar við erum að tala um störf viljum við auðvitað að byggð haldist í landinu — með virkri byggðastefnu viljum við gera það. Það er sjálfsagt að horfa á opinber störf úti á landi, en um leið verðum við að gæta að því að það sé gert eftir viðurkenndum ferlum, tekið sé tillit til starfsmanna og enginn vafi leiki á faglegum og fjárhagslegum rökum fyrir flutningnum. Grein sem felur í sér almenna heimild ráðherra til þess að ákveða aðsetur stofnana býður ekki upp á aukna virðingu fyrir opinberri stjórnsýslu. Ég hef áhyggjur af því, virðulegi forseti, ef þessi grein verður að lögum, að það muni stuðla að lausung og jafnvel glundroða á ákveðnum sviðum stjórnsýslunnar því að það að færa stofnun á ekki að vera daglegt brauð eða partur af einhverjum sveigjanleika, það eiga að vera fyrir því haldbær rök og það á að taka í það góðan tíma. Þegar stofnun er sett niður þarf líka að huga að því hvar er best fyrir stjórnsýsluna að vera. Í sumum tilfellum getur verið mjög hagstætt að hafa stjórnsýslueiningu í Reykjavík þar sem er hægt að skjótast á ráðstefnur og fundi í hádeginu. Í öðrum tilfellum gæti verið mjög hagstætt að hafa stjórnsýslueininguna úti á landi. Þetta þarf allt að meta og taka til umræðu, en það á ekki að mínu viti að gefa ráðherra opna heimild til þess að haga þessu eins og honum sýnist, heldur þurfum við að taka umræðuna í þingsal.