144. löggjafarþing — 58. fundur,  28. jan. 2015.

störf þingsins.

[15:24]
Horfa

Haraldur Einarsson (F):

Virðulegur forseti. Hagnaður bankanna og bankakerfisins síðustu ár hefur verið alveg gígantískur. Margir hafa spurt sig hvernig það megi vera svo stuttu eftir að þeir urðu gjaldþrota. Eins og ekkert hafi í skorist er hagnaður þeirra sem aldrei fyrr. Samt sem áður eru fjármálastofnanir að loka útibúum, leggja á ný þjónustugjöld og jafnvel hækka útlánsvexti þvert á stýrivaxtalækkun. Þetta bendir til þess að hagnaðurinn sé ekki raunverulegur. Lánasöfn voru afskrifuð um 50–55% að meðaltali þegar þau voru færð yfir í nýju bankana. Skýrsla sem var gerð á vegum Deloitte í London sýndi það. Það sýnir að 45–50% af lánasafninu voru kröfur sem almenningur og fyrirtæki landsins voru talin ófær um að borga eftir efnahagshrunið. Þar af leiðandi hefði verið eðlilegt að fjármálastofnanir sem fengu þessa miklu niðurfærslu mundu skila því til viðskiptavina sinna, þjóðarinnar.

Kröfuhafar fengu yfirráð yfir íslenskum bönkum. Lánasafnið var metið á hálfvirði út af eignahruni, óðaverðbólgu og gengishruni, en rukkað 100% þvert á það sem neyðarlögin ganga út á. Íslensk heimili og fyrirtæki sátu eftir með allt of miklar skuldir. Tækifærið var til staðar að láta íslensk heimili og fyrirtæki njóta þeirrar niðurfærslu og það var vitað á þeim tíma, árið 2009. Út á nákvæmlega þetta gekk 20% leið Framsóknar og út á nákvæmlega þetta gekk skuldaleiðréttingin. Meðvituð pólitísk ákvörðun var tekin í aðra átt af síðustu ríkisstjórn.