144. löggjafarþing — 59. fundur,  29. jan. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:11]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir þessar athugasemdir. Ég veit að hún, kannski umfram aðra hér inni, skilur hvað ég er að ganga í gegnum akkúrat núna. Ég rifja það upp að á sínum tíma lagði hv. þingmaður, þáverandi hæstv. ráðherra, einmitt til blandaða leið komugjalda og gistináttagjalds sem endaði eingöngu í gistináttagjaldinu. Og auðvitað vissi hv. þingmaður þá, alveg eins og við vitum núna, að gistináttagjaldið eitt og sér dugar ekki til. En það náðist ekki samstaða um það og það er alveg rétt að það er vont að ferðaþjónustan skuli í gegnum árin og áratugina ekki hafa getað komið sér niður á eina leið.

Mér þótti vont þegar, rétt fyrir framlagningu þessa frumvarps, kom fram stjórnarsamþykkt frá Samtökum ferðaþjónustunnar sem gekk í aðra átt en við höfðum verið samferða um lengst af; og ekki er langt síðan við vorum samhliða að vinna að þeirri útfærslu að náttúrupassa sem við ræðum hér. Auðvitað er það vont. Það sem er verra er að ekki er heldur samstaða um stjórnarsamþykkt stjórnar SAF. Það er ekki samstaða um það innan ferðaþjónustunnar og við sjáum það því miður.

Ég ákvað að halda mínu striki — við vorum komin alveg að endapunkti — vegna þess að maður verður að hafa sannfæringu fyrir því sem maður er að gera og ég hef það sannarlega með þessu. Öll þau atriði sem búið er að nefna að megi betrumbæta, það er sjálfsagt að skoða það.

Varðandi eftirlitið þá er það ekki þannig að ég viti ekki neitt um það sem ég er að tala um. Við erum að stefna að eftirliti sem verður lágstemmt. Það verður ekki umfangsmikið á hverjum stað heldur þannig að menn geti alltaf búist við því. Við gerum ráð fyrir tveimur föstum starfsmönnum á Ferðamannastofu sem síðan geta, og það er partur af umsýslugjaldinu, ráðið til sín starfsmenn (Forseti hringir.) til að taka einstaka staði og það er hugsunin. Ég fer betur yfir það í síðara svari mínu.