144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

Náttúruminjasafn Íslands.

[15:31]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Illugi Gunnarsson) (S):

Virðulegi forseti. Fyrst um síðasta lið spurningar hv. þingmanns, fjórða lið, um steypireyðina. Það hefur komið fram áður í ræðum og einnig í fjölmiðlum að fyrirkomulagið er hugsað þannig að hún fari til Húsavíkur en þó þannig að það liggi fyrir að þegar kemur að því að hægt verður að koma hér upp sómasamlegu safni, höfuðsafni, komi hún aftur hingað en þá verði búin til afsteypa sem hægt verði að hafa áfram á Húsavík. Þetta hefur komið fram hér áður og ég ítreka það, en við viljum auðvitað líka styðja vel við bakið á þeim náttúrugripasöfnum og minjasöfnum sem eru nú þegar til staðar, m.a. á Húsavík, og gera þeim kleift að efla sína starfsemi. Þessi ákvörðun var liður í því.

Hvað varðar framtíðarsýn er alveg hárrétt sem hv. þingmaður sagði, staða náttúruminja og náttúrugripa hér, safnamál, hefur um langa tíð, áratugum saman, verið í ólestri. Í sjálfu sér er ekki komin endanleg mynd á hvernig á að leysa það. Það eru uppi áform sem hv. þingmaður nefndi í sinni fyrirspurn um sýningu í Perlunni, en ég vil taka fram að slík sýning getur aldrei orðið ígildi safns með þeim hætti sem við hv. þingmaður erum örugglega sammála um að þurfi að koma hér. Ég get bara sagt að það er í sjálfu sér ekki komin nein endanleg sýn á þetta mál önnur en sú að það stýrist mjög af því fjármagni sem við höfum til þessa málaflokks. Við erum í vandræðum með okkar söfn, það er ekki bara náttúruminja- eða -gripasafn sem við erum í vanda með, sem er þó alveg sérstakur og sláandi vandi vegna þess að okkur vantar það algjörlega. Ýmis önnur söfn, svo sem listasafnið, hafa um langa hríð verið undirfjármögnuð. Það vantar fjármuni til okkar safna þannig að þetta er hluti af býsna stóru máli sem hv. þingmaður (Forseti hringir.) hefur hér máls á.