144. löggjafarþing — 60. fundur,  2. feb. 2015.

jöfnun húshitunarkostnaðar.

383. mál
[17:12]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Eins og hæstv. ráðherra sagði réttilega er þetta snúið mál en ég styð hana fullkomlega í áformum hennar. Ég er þeirrar skoðunar að auðvitað kosti að halda landinu í byggð, en það er grundvallarafstaða hjá mér að ég er reiðubúinn til þess að axla þær byrðar sem skattborgari sem það felur í sér. Það er ákaflega mikilvægt að jafna lífskjör milli þeirra sem búa á þéttbýlissvæðunum og hinna sem búa í hinum strjálu byggðum. Það er alveg klárt og hefur margsinnis komið fram að húshitunarkostnaðurinn skiptir miklu máli. Ég er að vísu þeirrar skoðunar að 240 milljónir séu ekki sú upphæð heldur að töluvert meira þurfi til þess. En guð láti gott á vita.

Ég vil samt ítreka að þetta má ekki verða til þess að við, þingið eða framkvæmdarvaldið, sláum slöku við það að halda áfram að afla heits vatns. Það er hægt að finna heitt vatn svo að segja hvar sem er. Það kostar líka peninga. Það má ekki draga úr því. Sömuleiðis skulum við fylgjast með nágrannaþjóðunum og hvernig þróun varmadælna fleygir þar fram. Það er einnig (Forseti hringir.) hlutur sem við þurfum að skoða, hugsanlega með meiri ívilnunum en ríkið býður upp á (Forseti hringir.) núna.