144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

störf þingsins.

[13:47]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Það er liðinn rétt rúmur mánuður frá því skattkerfisbreytingar urðu, þ.e. að lægra þrep virðisaukaskatts hækkaði og hærra þrepið lækkaði og nokkur vörugjöld lækkuðu. Það hefur verið fróðlegt að fylgjast með hvernig þessi framkvæmd hefur verið vegna þess að það ríður mjög á að kaupmenn sýni ábyrgð og skili þessu til neytenda. Það verður að segjast eins og er að það hafa komið fram nokkur tilvik þar sem greinilegt er að svo hefur ekki verið, sem er óþolandi.

Það sem hins vegar ýtti mér í það að ræða þessi mál í dag er nýlegt viðtal við framkvæmdastjóra Samtaka verslunar og þjónustu þar sem hann lét hafa eftir sér að það mundu líða nokkrar vikur, allnokkrar vikur, þangað til sykurskattslækkunin mundi skila sér að fullu til neytenda. Ég hugsaði með mér: Það er ekki logið upp á íslenska verslun. Á maður að trúa því að kaupmenn hafi birgt sig upp af sykri og sykruðum vörum nokkrum vikum áður en fyrirhuguð lækkun átti að koma til framkvæmda? Eða er það þannig að engin þróun hafi orðið hér í 100 ár? Hafa menn birgt sig upp með haustskipinu og bíða svo spenntir eftir að vorskipið komi með nýjar birgðir? Hvers konar málflutningur er þetta, herra forseti? Á maður að trúa því virkilega að kaupmenn standi sig ekki betur en þetta? Ef svo er þá eru þeir hvorki vanda sínum né verki vaxnir. Það er greinilegt líka að þeir sem eru í fyrirsvari fyrir stærstu verslunarfyrirtæki á Íslandi á ofurlaunum skila greinilega ekki árangri í samræmi við það sem þeim er greitt.

Þessi viðbrögð af hálfu kaupmanna og tregða þeirra til þess að skila þeim skattkerfisbreytingum til neytenda sem átti að gera, hlýtur að kalla á sérstakar aðgerðir af hálfu þeirra sem hér sitja. Ég mun ekki telja það eftir mér vegna þess að þetta er eitt af áhyggjuefnunum sem ég hafði við vegna (Forseti hringir.) skattkerfisbreytinganna. Ef þær eru að verða að veruleika þá verður tekið á (Forseti hringir.) því.