144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:21]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er náttúrlega svo að kannski er fyrsta verkefnið sem hv. þingmaður þarf að stuðla að að verði leyst er einhver samhljómur í eigin röðum, það er kannski þar sem þarf að byrja. Það er sagt í fullri vinsemd því að það eru svo ólíkar raddir sem heyrast úr ranni stjórnarflokkanna að manni finnst eins og þyrfti að byrja þar.

Af því að hv. þingmaður talar um almenna sátt þá er ég sammála því. Við áttum ágæta sérstaka umræðu um þessi mál fyrir einhverjum mánuðum síðan og niðurstaðan var þá sú að þingmenn, allir þeir sem tóku þátt í þeirri umræðu, lýstu sig tilbúna til þess að koma að því að finna sameiginlega lausn. En hæstv. ráðherra gerði ekkert í því að þiggja þá nálgun. Afraksturinn er hér, þ.e. mál sem er ónýtt áður en það kemst til nefndar.