144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[15:45]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa það svipað og hv. þingmaður að ég man ekki nákvæmlega hvernig þetta var en ég gæti giskað á að fjármálaráðherrann hafi flutt tekjuöflunarhluta málsins, þ.e. gistináttagjaldsfrumvarpið en ferðamálaráðherrann það sem sneri að Framkvæmdasjóði ferðamannastaða. Það var að minnsta kosti eðlileg verkaskipting miðað við hana eins og gengur og gerist innan Stjórnarráðsins, en þetta var unnið í góðu samstarfi. Ráðuneytin voru í þessu saman og kláruðu þessi mál saman, svo mikið man ég.

Það er rétt að gistináttagjaldið var lagt fram, frumvarpið eins og það kom fram gerði ráð fyrir einum þremur flokkum, að hærra gjald væri á hótel, 200 kr. ef ég man rétt og kannski átti hundraðkallinn að vera á gistiheimili, bændagistingu, farfuglaheimili og öðru slíku. Ég man ekki hvort tjaldstæðin áttu að borga fimmtíukall eða ekki neitt, en alla vega var þar verið að reyna með gjaldflokkum að fanga svolítið mismunandi verðmæti í gistingunni.

Farseðlagjaldið eða komugjaldið í formi farseðlagjalds var þannig útfært, eins og það var lagt fyrir þingið, að það tók mið af fluglengd. Það voru þrír eða fjórir gjaldflokkar þar sem farþegagjaldið var lægst á stystu flugleiðunum, síðan hærra á meðallöngum flugleiðum og hæst á mjög löngum flugleiðum. Héldi slík útfærsla þá hefði hún þann augljósa kost að hún kæmi mjög vægt við styttri flugleiðirnar, innan lands og til Færeyja og Grænlands til dæmis, en legðist aðeins þyngra á flugleiðir til meginlandanna beggja vegna við Ísland, og það væru að mörgu leyti góð rök fyrir því. Þetta fór svo á annan veg. Niðurstaðan varð sú að lobbíisminn hafði betur og út fór farseðlagjaldið en gistináttagjaldið var því miður flatt út og endaði í einum sléttum hundraðkalli á allar gistieiningar, sem er auðvitað meingölluð útfærsla að mörgu leyti. Eini kosturinn er að það er óskaplega einfalt en þar með er líka í raun allt rökrétt samhengi við andlagið farið fyrir borð, þ.e. sem eitthvert hlutfall af verðinu sem menn greiða fyrir gistinguna.