144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[16:06]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Eitthvað dró nú úr jákvæðninni en ég bind enn þá vonir við hana.

Þetta er einmitt verkefni nefndarinnar, að fara í gegnum það hvort eigendur lands í einkaeigu mundu ekki vilja taka þátt í náttúrupassanum vegna þess að þeir spara sér innheimtukostnaðinn. Hann er umtalsverður. Menn hafa talað um að taka gjald af rútum á malbikuðum bílastæðum. Hætt er við að það verði mjög dýrt í innheimtu. Það koma kannski 10 til 20 rútur einhvern daginn og það þarf að vera starfsmaður allan daginn við að taka gjald af þeim. Ég hugsa að margir eigendur einkastaða muni taka þátt í þessu vegna þess að þeir spara sér kostnað við innheimtu og líka vegna þess að það verður svo óvinsælt hjá ferðamönnum ef þeir eru að borga hingað og þangað. Menn munu jafnvel sniðganga staði þar sem slíkt gjald er innheimt.

Þetta er einmitt verkefni nefndarinnar. Ég vonast til þess að hún fari í gegnum það hvernig framkvæmdin verður á þessu, hvernig hægt er að láta þennan eina eftirlitsmann fá nægilegar valdheimildir. En ég held að ferðamaðurinn almennt séð verði jákvæður. Hann er vanur því að borga inn á söfn og annað slíkt annars staðar og hann er vanur því að haft sé eftirlit með því að menn greiði.