144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[18:48]
Horfa

iðnaðar- og viðskiptaráðherra (Ragnheiður E. Árnadóttir) (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Nú skulum við vera alveg róleg. Það er akkúrat vandamál þeirrar sem hér stendur að ég hef ekki lagt til skoðun mína á því til hvaða nefndar þetta mál eigi að fara. Það er það sem ég var að segja áðan, að undir umræðunni — og það er væntanlega það sem umræða í þingsal á að draga fram, hver séu aðalatriðin í málinu. Mér hefur fundist mjög afgerandi það sjónarmið í umræðunni sem snertir almannaréttinn. Það var þess vegna sem ég var að velta þessu fyrir mér og það er ágætt að fá þau sjónarmið.

Það er alveg rétt sem hefur komið fram í bæði máli hv. þm. Jóns Gunnarssonar og hv. þm. Kristjáns L. Möllers að þetta er atvinnumál í eðli sínu þar sem þetta snýst um ferðamálin. Þannig hafði ég alltaf gert ráð fyrir því að þetta færi inn í atvinnuveganefnd. En ég viðraði þessa skoðun mína áðan og það er ágætt að fá sjónarmið hv. þingmanns á því.