144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:01]
Horfa

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það er kannski ástæðulaust að orðlengja um þetta frekar ef komin er sátt í málinu milli hæstv. ráðherra og þeirra forkólfa atvinnuveganefndar sem hér hafa haft sig nokkuð í frammi en ég ætlaði að koma þeim sjónarmiðum til varnar að það væri efnislega ekki fráleit tillaga að þetta færi í umhverfis- og samgöngunefnd, einfaldlega vegna þess að þar eru mál sem þarf að leiða til lykta samhliða þessu máli, og helst á undan því eins og ákvæðin um almannarétt í náttúruverndarlögunum. Þau eru þar í skoðun og verða á næstu vikum. Þangað mun tillaga um landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum ganga og fleiri ágæt rök standa alveg fyrir því efnislega að umhverfis- og samgöngunefnd gæti unnið að málinu. Ég efast stórlega um að það teldist brot á þingsköpum. Mér finnst æsingurinn óþarflega mikill í þeim köppum í atvinnuveganefnd með fullri virðingu fyrir þeim en ég ætla ekki að fara að gera hér aðrar tillögur en ráðherrann hefur gert.