144. löggjafarþing — 62. fundur,  3. feb. 2015.

náttúrupassi.

455. mál
[19:17]
Horfa

Svandís Svavarsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni svarið. Kjarni málsins er auðvitað að það verður ekki tekið til við úrvinnslu frumvarps hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra um náttúrupassa fyrr en þingið hefur leitt sinn skilning til lykta að því er varðar almannaréttinn. Þannig er það. Það verður að gera þetta í réttri röð.

Svo vil ég vegna aðfinnslna hv. þingmanns gagnvart orðum mínum um samráð við umhverfisráðuneytið segja að ég er í grunninn algjörlega sammála þingmanninum. Hins vegar vil ég með þingmanninum og þingheimi rifja upp að það var nú svo að fyrsta verk fyrrverandi umhverfisráðherra, Sigurðar Inga Jóhannssonar, var að leggja til að náttúruverndarlög yrðu numin úr gildi, eins og þau lögðu sig, með tveimur frumvarpsgreinum.

Það var rekið til baka í góðri sátt við stjórnarmeirihlutann eftir töluverða vinnu og niðurstaðan fól í sér þann sameiginlega skilning stjórnarandstöðu og stjórnarflokka að umhverfisráðuneytið fengi ákveðið verkefni frá þingnefndinni, þ.e. að freista þess að leita meira jafnvægis við hagsmunaaðila og ýmist bakland varðandi fimm tiltekna þætti. Einn þessara þátta er almannarétturinn og nú hefur umhverfisráðuneytið gert þingnefndinni grein fyrir stöðu þessara mála. Það er í samræmi við það sem þingið ákvað og það sem þingnefndin gerði sérstaklega grein fyrir í ítarlegu nefndaráliti, þannig að þetta verkferli er allt í virðulegu samræmi við stöðu þingsins og þingnefndarinnar og á forsendum hennar.