144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mig langar að taka aðeins til umfjöllunar ákvörðun Seðlabankans um að halda stýrivöxtum óbreyttum í 4,5%. Hann telur blikur á lofti vegna komandi kjarasamninga, að þeir geti stefnt efnahagshorfum í tvísýnu og það sé vaxandi óróleiki á vinnumarkaðnum. Þegar Starfsgreinasambandið hefur lagt fram kröfur um að lægstu laun hækki á þrem árum í 300 þús. kr. spyr maður sig hvenær í ósköpunum Seðlabanki Íslands geri ráð fyrir svigrúmi til einhverra launahækkana. Er það bara alveg útilokað í kokkabókum Seðlabankans að lægstu laun í landinu hækki? Er Seðlabankinn farinn að stjórna launastefnu í þessu landi eða hvað? Maður spyr sig. Það er ekki eins og að ekki séu til fjármunir í þessu samfélagi okkar. Hafrannsóknastofnun hefur gefið út að það eigi að auka loðnukvótann um næstum helming, sem gerir í útflutningsverðmætum 25–30 milljarða, og það eru einungis átta fyrirtæki í landinu sem njóta þessa. Það er ekkert verið að tala um að skoða einhverja möguleika á að fleiri hafi þá aðgengi að þeim miklu fjármunum sem þarna eru á ferðinni, opna það eitthvað eða hækka veiðigjöldin, ná einhverjum fjármunum þar út. Það eru einungis átta fyrirtæki sem fá sisona útflutningsverðmæti upp á 25–30 milljarða til viðbótar og gífurlegur hagnaður fylgir í kjölfarið.

Það er mikið óréttlæti í þessu þjóðfélagi, hvernig fjármunum er ráðstafað, hvort menn treysti sér til að hækka lægstu laun og hvort menn treysti sér til (Forseti hringir.) að skattleggja þá sem (Forseti hringir.) hafa breiðu bökin eins og útgerðin í landinu.