144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[16:53]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (P) (andsvar):

Forseti. Mér finnst þetta mjög mikilvæg hugmynd sem ég hvet hv. velferðarnefnd til þess að hrinda í framkvæmd af því að hér er um ákveðin grundvallarmannréttindi að ræða. Það er ömurlegt fyrir hvern sem er að vera upp á maka sinn kominn. Ég veit um dæmi um konu sem lenti í því að missa atvinnuna, átti ekki rétt á atvinnuleysisbótum, henni var bent á að fara til sveitarfélagsins en hún átti ekki rétt á bótum þar af því að maður hennar þótti vera með of há laun, sem þó voru ekki há til framfærslu tveggja fullorðinna og barna. Viðkomandi þurfti þá að fá vasapeninga hjá manninum sínum. Það er ekki hægt að bjóða fólki upp á svona, hvort sem það er kona eða karl sem er í þeirri stöðu. Mér finnst þetta því alveg þess virði að hrinda í framkvæmd.

Síðan finnst mér líka gríðarlega mikilvægt að í vinnunni sem mun eiga sér stað í nefnd verði farið í að skoða reynslu annarra þjóða af því þegar fólk er þvingað í atvinnuúrræði. Mér finnst afar mikilvægt að skoða sérstaklega, ef fólk er þvingað í atvinnuúrræði sem ekki hentar því, hversu lengi fólk nær að halda vinnunni. Það væri líka mjög gagnlegt að kanna hvers konar félagsaðstoð þeir aðilar fá sem eru í þeirri stöðu og hvaða úrræði þeim standa til boða, af því að það er mjög erfitt oft á tíðum að fá upplýsingar um réttindi sín hjá sveitarfélögunum. Þetta er allt öðruvísi í Danmörku, þá fær fólk bara plagg með því hvaða réttindi það hefur. Hér þarf að draga þetta út með töngum.