144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[18:01]
Horfa

Elsa Lára Arnardóttir (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svörin. Eins og fram kom í ræðu minni áðan þá lít ég ekki á frumvarpið sem refsingu. Ég lít á það sem hvata til að hjálpa einstaklingum. Ástæðan er sú að ég hef oft hitt og unnið með einstaklingum sem farið hafa í gegnum þessi virkniúrræði og það er fátt sem gleður mig jafnmikið og að sjá glaða einstaklinga sem eru þakklátir fyrir þann hvata sem þeir hafa fengið, aðstoð til þess að búa til ferilskrá hjá ráðgjöfum hjá Vinnumálastofnun, við að setja sér markmið með starfsþjálfun eða vinnustaðaþjálfun. Þarna hef ég stundum séð einstaklinga sem verið hafa daprir og liðið mjög illa, félagslegi þátturinn hefur verið mjög erfiður, en eftir að þeir hafa tekið þátt í virkniúrræðum hafa þeir komist af stað í vinnu.

Auðvitað greinir okkur á um ákveðna þætti sem fram koma í frumvarpinu og það eru ýmsir þættir sem þarf að skoða ofboðslega vel og vinna vel með í nefndinni sem málið fer til, sem er velferðarnefnd. Það verður mjög gott að senda málið til umsagnar og taka umræðu um það í nefndinni. Það getur vel verið að á því séu einhverjir agnúar sem við þurfum að vinna með. Ég hvet okkur öll sem að málinu koma að ræða það vel og líka með umræðu í þinginu. En eins og ég segi þá finnst mér vera ofboðslega mikill hvati í frumvarpinu fyrir fólk til að fá aðstoð við að komast út á vinnumarkaðinn að nýju sem verið hefur einangrað, sem hefur ekki verið úti á vinnumarkaðnum í langan tíma. Það eru þættir sem ég vona að flestir noti sér í til dæmis í kennslu, þ.e. að hafa hvetjandi áhrif en ekki letjandi.