144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:04]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég átta mig ekki alveg á því á hvaða vegferð hæstv. félags- og húsnæðismálaráðherra er í þessari upptalningu sinni. Vandinn er fyrir hendi og þó að ýmis sveitarfélög hafi sett einhver skilyrði erum við að tala um pólitíkina og prinsippin í þessu máli heilt yfir, við erum að tala um það. Við erum að tala um einstaklinga, manneskjur, fjölskyldur, börn viðkomandi einstaklinga, við erum að tala um það hvernig við sem samfélag viljum tryggja að fólk geti framfleytt sér og að það sé á ábyrgð samfélags okkar að fólk geti það, þótt það standi tímabundið frammi fyrir erfiðum aðstæðum. Það ætti að vera hugsun hæstv. ráðherra að samræma reglur sveitarfélaga í þeim efnum þannig að svo sé, en ekki að samræma regluna þannig að sveitarfélögum sé heimilt samkvæmt þessu frumvarpi að henda fólki út af fjárhagsaðstoð og skerða hana ef það fellur ekki inn í það módel sem þarna er á ferðinni.

Út á það gengur þetta í raun og veru. Ég og hæstv. félagsmálaráðherra erum einfaldlega ekki sammála í þeim efnum. Ég vil að það sé félagslegt öryggisnet fyrir alla, af því að ég vil ekki að fólk þurfi að standa frammi fyrir því á lífsleiðinni, ef það er svo illa statt að vera komið á þann stað eftir langvarandi atvinnuleysi, að þurfa hreinlega að fara bónarveginn til mæðrastyrksnefndar eða kirkjunnar.