144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:11]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka þingmanninum ræðuna. Svo kom hæstv. ráðherra hér og las upp langan lista sveitarfélaga sem ekki er vitað hvort eru að fara að lögum eður ei. Í lögunum frá 1991 er kveðið mjög á um að þetta séu lög sem veita fólki réttindi, þetta séu almenn réttindi, en að sjálfsögðu sé ætlast til ábyrgðar af þeim sem fá þjónustu hjá sveitarfélögunum hver svo sem hún kann að vera.

Mér finnst það einkennilegt að þegar sveitarfélög eru að spara sér fjármuni og fara að skilyrða fjárhagsaðstoð, og ekki liggur ljóst fyrir hvort þau hafi yfir höfuð lagalegar heimildir til þess, að hlaupið sé til og sett undir lekann og lögunum breytt, í stað þess að fara yfir hvað sveitarfélögin séu að gera og hvernig verið sé að leysa fjárhagsvanda á kostnað þeirra sem minnst hafa.

Ég vil spyrja hv. þingmann út í þetta, annars vegar þann vilja til þess að einstaklingar taki meiri ábyrgð, en hins vegar kröfuna sem fram kemur í frumvarpinu á sveitarfélögin. Þar segir um viðmiðið sem ráðherra ætlar að setja samkvæmt lagafrumvarpinu:

„Er með þessu ákvæði ætlað að stuðla að því að meira samræmi verði milli sveitarfélaga auk þess að tryggja að reglulega sé farið yfir viðmiðunarfjárhæðir …“

Hefur þingmaðurinn trú á því að verið sé að krefjast þess sama af sveitarfélögunum og af þeim einstaklingum sem verða að reiða sig á fjárhagsaðstoð? Eða er Davíð að taka ábyrgðina á meðan Golíat fær bara lögunum breytt fyrir sig?