144. löggjafarþing — 63. fundur,  4. feb. 2015.

félagsþjónusta sveitarfélaga.

416. mál
[19:15]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti Ég þakka hv. þingmanni svarið. Það er mismunandi sýn á lögbundnar skyldur sveitarfélaga. Það eru margir sem telja að skilyrðingar séu í raun ekki heimilar. Nú er það svo að sveitarfélögin eru mörg hver skuldsett, hafa þurft að skera niður og eru í vandræðum, fjárhagsvandræðum, og þurfa að ráðstafa fjármunum og þá er mikil freisting að fara inn í fjárhagsaðstoðina. Ég tel að það sé hlutverk ráðherra að gæta hagsmuna almennings og horfa á málið út frá því sjónarhorni og fara yfir það hvernig verið er að gera þetta og hvort það sé í rauninni forsvaranlegt. Ef sveitarfélögin ráða ekki við þetta þá þarf annars vegar að skoða hvort sveitarfélögin séu jafnvel of lítil sum hver þannig að þau geti ekki haldið upp lögbundinni skyldu og tryggt að íbúar þeirra njóti jafnræðis á við aðra, eða þá, ef það er ekki niðurstaðan heldur tímabundinn vandi, að þá þurfi að finna leiðir til að auðvelda fjármögnun á þessu.

Ég veit að Reykjavík er félagslega þyngra svæði en mörg önnur, sama má segja um Reykjanesbæ, og jöfnunarsjóður mætir ekki slíkum útgjöldum. Það er því ekki jafnað á milli sveitarfélaga vegna félagslega þáttarins, útgjaldaþáttarins. Ég tel að við sem erum kjörin á þing til að gæta almannahagsmuna eigum að skoða málið frá því sjónarhorni.